Einstök börn…

…ég hef verið heppin að fá að leggja yndislegum málefnum lið síðan ég fór af stað með þættina mína. Nú var ég reyndar ekki í þáttagerð, en var að gera skrifstofuna hjá Einstökum börnum og hún Eva Laufey var svo dásamleg að fjalla um þetta verðuga félag í Íslandi í dag á Stöð 2.

Smella hér til þess að horfa á myndskeiðið á Vísir.is

Smellið hér til þess að skoða heimasíðu Einstakra barna!

Þessi póstur verður því velstór, og fullur af upplýsingum.

Ég kom fyrst inn í húsnæðið í byrjun mars, þegar það var enn í uppbyggingu, og það var strax ljóst að það væri hægt að gera þetta að virkilega fallegu húsnæði…

Síðan í lok mars, þá var rýmið loks komið á það stig að við gátum farið að mála og gera og græja…

…og leið mín lá þá beint í Slippfélagið til þess að sækja prufurnar á veggina. Það er ekki að spyrja að mínu fólki í Slippfélaginu, en þegar þau vissu hvað verkefni væri þá kom ekki annað til greina en að gefa málninguna á rýmið – hjartans þakkir fyrir elsku Slipparar ♥♥♥

…eins og alltaf þá borgar sig að setja prufur á veggina og velta þessu vel fyrir sér. Í mínum huga kom reyndar alltaf bara einn litur til greina, og viti menn – þegar að upp var staðið þá varð einmitt hann fyrir valinu…

Liturinn sem varð fyrir valinu er í litakortinu mínu og heitir Yljasmella til að skoða.

Ylja er litur í allt rýmið, heil herbergi eða önnur rými þar sem þú sækist eftir góðu faðmlagi frá rýminu og fallegri hlýju. Ylja er hlýr grár litur – með örlitlum brúnum, jafnvel smá grænum undirtón. Mjúkur og notalegur lýsir honum vel. Ljósa útgáfan af Ró.

…og útkoman varð, að mínu mati – alveg hreint dásamleg ♥

Moodboard

Að vanda er mikið af því sem ég er að nota frá Rúmfatalagerinum, Dorma og Húsgagnahöllinni, öll húsgögn og flestir smáhlutir – og auðvitað er dásamlegt að finna með fyrirtækjum sem eru tilbúin að leggja svona góðu málefni lið. Þar að auki fengum við geggjaða panilinn í Bauhaus, sem gjörbylti rýminu og það sem meira er – gerði hljóðvistina svo mikið betri. Í Von verslun fengum við dásamlegu húsahilluna fyrir barnahornið. Fakó var með þetta gordjöss stell fyrir eldhúsið ásamt fleiru. Art & Text voru svo eins og bjargvættir með að setja filmu í gluggana og á veggi, þvílíki snillingurinn sem hann er!

Minnsti sendibíll landsins heldur áfram að standa sig, og hann var heldur betur fylltur í þetta sinn…

…en enn og aftur, þegar útkoman er góð – þá skiptir litlu hvernig maður kemur dótinu á staðinn!

Stofan / seturýmið

Þarna kom panillinn frá Bauhaus sterkur inn og gefur rýminu svo mikinn karakter. Á vegginn á síðan eftir að koma sjónvarp, sem verður þá alls ekki mjög áberandi þar sem það er á dökkum bakgrunni. Mottan frá Húsgagnahöllinni er svo að koma svo sterk þarna inn, því að með því að vera með stóra mottu sem “akkeri” fyrir rýmið, þá erum við búin að afmarka svo sterkt þetta pláss. Auk þess er hún bara svo endalaust falleg…

…sófaborðin eru líka í uppáhaldi, en þau eru frá Rúmfó og ég elska svona grúbbuborð. Það er þá auðvelt að splitta þeim upp ef þarf, auk þess sem þau eru stöðug þegar að litlir kroppar reyna sig upp við þau…

Svo eru það náttúrulega þessir fallegu Sicilia sófar frá Húsgagnahöllinni, þessi brúni litur kom með svo mikinn hlýleika inn, og það er líka geggjað notó að sitja í þeim…

…liturinn á sófunum var líka alveg fullkomin við litinn á veggjunum, og púðarnir urðu alveg í stíl við Einstök bötn-merkinguna á veggnum. Svona á þetta að vera…

…og ef þið spyrjið mig hvað er mitt uppáhalds við sófana, fyrir utan lappirnar sem gera það auðvelt að þrífa þarna undir, þá eru hliðarnar hreint geggjaðar!

…svörtu stólarnir voru til fyrir, og mér finnst það bara geggjað að við gátum nýtt það sem til var. En annað sem ég vil sérstaklega minnast á er sú staðreynd að við vorum ekki að setja sófana með veggjunum. Við búum til “eyju” á miðju gólfinu með mottunni fyrir sófana, og þá er hægt að nýta plássið með veggjunum fyrir skápana. Sem eru bæði prýði fyrir rýmið og bara nauðsynleg geymsla…

…báðir skáparnir eru frá Rúmfó, en ég vil taka það fram að lokaði skápurinn er örlítið dýpri en glerskápurinn, þannig að við settum glerskápinn nær endaveggnum og þá sést það ekki neitt að þeir séu ekki alveg eins. Þeir eru svo báðir veggfestir og við höfuð gott pláss fyrir snúruna og svona á bakvið skápinn sem er festur aðeins frá veggnum…

…verð líka að minnast sérstaklega á apakrúttið þarna ofan á, en lampinn, blómið og potturinn eru frá Dorma

…það er nefnilega sem mikilvægt að muna að það er engin skylda að setja sófana uppvið veggina, og nánast í öllum tilfellum þá græðum við á því að “frelsa” þá 🙂

…við hliðina á stofunni er svo barnahornið, sem er strax búið að sanna sig. Það er svo gaman að geta verið með svæði með spennandi hlutum fyrir krílin.

…hillan dásamlega og tréleikföngin eru frá Von Verslun, fílarnir sem eru stabílir og endalaust skemmtilegir fyrir smáfólkið eru frá Rúmfó, og körfurnar líka. Drekarnir, sem eru hreint dásamlegir eru til sölu hjá Einstökum börnum, ásamt ýmsu fleira og þið getið smellt hér til að skoða

…skýjadýnan er svo snilld fyrir minnstu krílin sem er gott að geta lagt niður, en hún er frá Undrabörn.is

…ég talaði við þau hjá Forlaginu og þau voru svo yndisleg að gefa bækur til þess að hafa í körfum – kærar þakkir! Magnað hvað barnabækur geta verið fallegar…

…okkar besti maður er heldur betur ánægður með nýja plássið…

“Forstofa”

Aðkoman var höfð fremur einföld. Það þurfti í raun ekki mikið þarna því að panillinn er að gera svo mikið fyrir plássið. En við ákváðum að setja bekk, sem væri hægt að tylla sér á, og snaga svo hægt væri að hengja af sér veski og yfirhafnir að vild…

…bekkur er úr svona svargráu leðurlíki og kemur frá Dorma, en snagarnir eru frá Rúmfatalagerinum

..og þar sem það er ekki alltaf eitthvað hangandi á snögunum, þá gerði það mikið að hengja bara eitt gerviblóm þarna á, svona til þess að fá hlýleika og smá lit á vegginn…

Borðstofa

Rétt eins og á heimili, þá vill borðstofu/eldhúsborðið verða ákveðin miðpunktur þar sem fólk safnast saman, fær sér kaffibolla og ræðir saman. Við vildum fá þessa stemmingu þarna inn. Vera með borð sem gæti verið fyrirtaksfundarborð, en líka bara svoldið heimilislegt og kózý…

…bæði borðið og stólarnir eru frá Rúmfó, og ég gæti eiginlega ekki verið ánægðari með hvernig það kemur út…

…snilldin er líka sú að stólarnir eru ekki bara fagrir heldur er alveg einstaklega þægilegt að sitja í þeim…

…þið sjáið líka vel litinn á stólunum hér, en þetta er svona ótrúlega fallegur hlýr grár tónn…

…og þar sem við viljum hafa pláss fyrir aukaborð (fyrir námskeið/spilakvöld og slíkt) þá er snilld að hafa nóg pláss og auðvelt að breyta til…

…viðarborðplatan er virkilega falleg, athugið að liturinn er nær því sem þið sjáið á hægri myndinni, en þetta sýnir líka hvað liturinn getur blekt við það eitt að t.d. ljósin sé kveikt. Svo eru líka tvær 50cm stækkunarplötur sem við fengum með…

…bakkinn er svo uppáhalds til lengri tíma, en þetta er Holger frá Húsgagnahöllinni

…upp við vegginn stendur síðan æðislegur skápur úr Dorma, með svona vírhurðum. Ofsalega fallegur…

..og klukkan er sömuleiðis frá Dorma. Pottar og gerviblóm frá Rúmfó

Eldhúsið/kaffibarinn

Innréttingin stendur við endavegginn, og við vorum alveg ákveðin í að vera með hillur á veggnum fyrir allt þetta helsta sem þarf að nota…

…ég ákvað að vera ekkert að kaupa mikið af glingri í hilluna, heldur stilltum við bara upp með stellinu sem er verið að nota og fallegum viðarbrettum.

Stellið er postulín úr Fakó og heitir Pino, og ég var sérstaklega hrifin af því að geta blandað saman tveimur litum. Brýtur aðeins upp normið. Þið getið smellt hér til þess að skoða

…glerkrukkur frá Byko voru svo snilld fyrir smá svona kruðerí til uppstillingar og næringar…

…við ákváðum síðan að gera smá svona kaffibar, svona viðbót við eldhúsið og svona “one stop shop” fyrir þá sem vilja smá kaffibolla og meððí…

…skenkurinn er frá Rúmfó, mjög stílhreinn og fallegur og hillan fyrir ofan er frá Dorma

…trébakkinn er frá Fakó, snilld til þess aftur að “afmarka” svæði fyrir kaffibollana. Glerkrukkan er líka frá Fakó og tekur akkurat tvo baunapoka (ef ég man rétt)…

…þessi hilla frá Dorma er reyndar alveg hrein sjúllað flott…

…ég hafði líka samband við snillingana í Bætiefnabúllunni og þau gáfu ýmislegt af hollu góðgæti sem ég gat sett á “nammi sem er ekki óhollt barinn” – hjartans þakkir!!

…fyrir gluggana fóru síðan Marisko gardínur á brautir og er þetta allt frá Rúmfó

…önnur fín lausn sem var til var að setja skápa utan um súluna, og fá þannig pláss fyrir alveg endalaust af skrifstofudóti og prentara og allt slíkt. Náðum að nýta rýmið vel þannig…

…alveg magnað hvað gardínur gera mikið fyrir rými…

Skristofan

Svo var það skrifstofan, sem var ekki komin með glerveggina þegar þetta var myndað. En hér var líka settur panill, nýttur sófinn sem til var og lagt upp með að gera þægilegt rými.


Sófinn frá Dorma, stólar – borð – motta allt frá Rúmfó..

…ef þið horfið á vegginn við gluggann, þá sjáið þið hvítann stokk – en þetta er svona sýningartjald sem rennist niður. Það þurfti því að gæta þess að vera ekki með gardínur eða neitt slíkt sem yrði fyrir tjaldinu þegar það kæmi niður…

…mér datt þá í hug að sniðugt væri að merkja bara vegginn með vegglímmiða og Art & Text redduðu í hvelli með þetta…

…eins merkti hann fallega gluggana að utan með fallegu fingraförunum sem mynda hjarta, og minna okkur á hvað allir eru einstakir…

…ótrúlega dýrmætu verkefni lokið og ég er svo sannarlega reynslunni ríkari eftir. Þakklát fyrir traustið sem mér var sýnt og vonast bara til þess að nýja, fallega rýmið hjálpi ykkur til þess að hjálpa öðrum – þannig var það hugsað ♥

…mig langar svo líka að minna ykkur á að þetta félag sem er að vinna þetta öfluga starf er ekki ríkisstyrkt og gengur fyrir styrkjum og aðstoð samborgara sinna. Þannig að með því að gerast styrktaraðili þá ertu svo sannarlega að leggja dásamlega verðugu málefni lið. Þú getur sjálf/ur ráðið upphæðinni og hvort að þú viljir styrkja mánaðalega eða í stakt skipti ♥

Smellið hér til þess að gerast styrktaraðili!

p.s. ef þú vildir vera svo dásamleg/ur að smella á like, svona af því að þú last póstinn og hafðir gaman að, þá yrði ég þér afar þakklát

2 comments for “Einstök börn…

  1. Anonymous
    07.10.2022 at 14:25

    Flott eins og allt hjá þér

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *