Skreytum Hús – 4.þáttaröð – 5.þáttur…

…þá erum við í þáttaröð 4 og fimmti þátturinn fer í loftið í dag. En þættirnir verða 6 rétt eins og í hinum seríunum, og koma inn vikulega á Vísir.is og á Stöð2+.

Smella hér til þess að horfa á þátt nr. 5 á Vísir.isog þátturinn er líka á Stöð 2+!

…og eins og alltaf þá mæli ég með að horfa á þáttinn áður en pósturinn er lesinn!

Ég held að flestir sem eru inni á samfélagsmiðlum þekki hana Guðrúnu Veigu, Gveiga85 á Instagram, og við erum búnar á þekkjast síðan í “denn” og þá breytti ég einmitt lítillega fyrir hana hjónaherbergi þegar hún bjó í Laugardalnum (sjá hér).

Það er sem sé komið fordæmi fyrir því að aðstoða hana með hjónaherbergi og hún hefur talað ítrekað um andúð sína á hjónaherberginu þeirra í nýjum hýbýlum í Vestmannaeyjum og mér fannst því kjörið að leggja land undir fót og aðstoða hana við að breyta þessu öllu. Þetta var allt saman rosalega góð hugmynd þar til ég mundi eftir því að ég er sjóveikari en allt og var núna á leið í Herjólf í október, tvisvar á sama deginum, og svo aftur í nóvember. Við skulum bara orða þetta þannig að ég á ekki von á mörgum ferðum til eyja svona að gamni mínu, þar sem ég varð næstum því ekki eldri eftir fyrstu ferðirnar.

En færum okkur yfir að aðstoða hana Guðrúnu Veigu, sem er litaglöð með meira og elskar ekkert meira en að hafa allt í kringum sig í alls konar litum. Eftirlætisliturinn var alltaf gulur og hún hatar bleikann, sem skal lesist þannig að hún elskar bleikan núna en á erfitt með að viðurkenna það. Þetta er mikilvægur punktur þegar fram líða stundir í þessum lestri.

Þegar við skoðum fyrirmyndirnar af rýminu þá er það frekar ólíkt restinni af heimili Guðrúnar Veigu. Litríkt og ljóst er svona ríkjandi, en hérna inni var allt ansi hreint dimmt og drungalegt miðað við rest og greinilega ákveðin uppgjöf með rýmið, heiðarleg tilraun til að byrja að mála með fjólubláum hafði fjarað út og svo vorum við með sýnishorn af mottu 🙂

Við ræddum fram og til baka um hvernig hún vildi helst hafa þetta og svo fékk ég hana til að senda mér nokkur herbergi sem hún var búin að skoða á Pinterest. Skemmst er frá því að segja að þetta var allt frekar opið, en þó litskrúðugt – ég var næstum engu nær…

En áfram örkum við og hún varð alveg ákveðin í að vilja bleika veggi, því hún hatar bleikann, en samt ekki þið munið. Ok, bleikir veggir skulu það vera!

Við vorum mikið að spá í höfðagöflum og þeir eru nú flestir í gráum tónum sem mér fannst ekki passa alveg við hana. Þannig að hugurinn hvarlaði að velúrpanilunum í Bauhaus, sem fást í alls konar litum og þar á meðal mjög fallegum gul/gylltum tón, og ég sendi mynd til eyja…

Hún varð alveg heilluð og ég var alveg: ok, en hvernig eigum við þá að hafa veggina?
Svarið kom um hæl: BLEIKA!

Ég: ok…….. 🙂

Sem sé, mér var hent út fyrir þægindaramman sem er alveg fínt stundum. Nú þurfti að hugsa og spá og ég fór á PInterest, þetta var alveg gerlegt:

Moodboard:

Réðist að miklu leyti af gula velúrpanilinum og sængurveri sem ég fann í JYSK:

Athugið að þetta eru beinir hlekkir á vörurnar – þið smellið bara á feitletraðann texta:

Rétti bleiki liturinn var næstur á dagskrá og ég sendi henni nokkra til að velja úr, enda mikið úrval af fallegum bleikum í Slippfélaginu

…og eftir smá pælingar þá varð það Sykurinn fagri sem varð fyrir valinu, en hann er eins og flestir litir – mjög breytilegur eftir birtuskilyrðum og fer frá því að virka mjög ljós í dökkbleikann:

…og útkoman eftir allar þessar pælingar var þessi, bleikt og bjútifúl með dass af gulu/gylltu og ljós viður með:

…fyrstan þarf að nefna rúmgaflinn sem var gerður úr títtnefnum velúrpanilum, en við létum þá ná alveg niður að gólflista og höfðum hann því veglegan og flottann…

…og þetta kom alveg hreint dásamlega út…

…þrátt fyrir að ég ætti kannski ekki alveg von á þessu litakombó-i í byrjun, þá er ég svo ótrúlega kát með hvernig þetta kom út. Litirnir svo fallegir saman og þetta var einstaklega hlýlegt kombó…

…náttborðin fann ég í JYSK, og fannst þau fullkomin þarna inn. Ljós og með þessu fallegu hurðum sem gera þau aðeins bóhó. Svo er hellingur af geymsluplássi…

…náttborðslamparnir og skermarnir eru frá Bauhaus, og það er eitthvað skemmtilegt vintage og kitch við þessa skerma. Speglarnir frá H&M Home og aftur eru svona bóhó líka…

…aldrei nóg af púðum, segi ég alltaf, en í þessu tilfelli þá eru tveir þeirra bara þessir hefðbundnu koddar að sofa á. Svo eru tveir skrautpúðar í gula tóninum sem harmónera við gaflinn og einn bleikur með myndstri á…

…bleika rúmteppið er úr JYSK og er úr velúr. Gardínurnar eru líka JYSK, Golta þessar innri hvítu og þunnu en Austra þær dekkri. Það stækkar líka rýmið mikið að taka brautirnar í loftinu alveg á milli veggjanna…

…ég vissi að hún elskar að hafa gyllt og ég stóðst ekki freistinguna að setja þennan fallega gyllta vasa í gluggann ásamt fallegum rifluðum led-kertum…

…stór standspegill er að gera svo mikið til að stækka rýmið, en það er snilld líka að aftan á honum er slá þannig að á hana er hægt að hengja rúmteppið þegar það er ekki í notkun…

…ef þið munið eftir smámottunni hennar, þessi sem var eiginlega eins og sýnishorn, hún fékk heldur betur “uppfærslu”. En þessi dásamlega motta er 200×300 sem er mjög góð stærð undir rúm sem er 180cm og kemur frá Dorma…

…ljósið er alveg tryllt flott og kemur frá Bauhaus, og það gerir alltaf svo mikið að vera með rósettur…

…Guðrún Veiga fékk sér Frame sjónvarp á vegginn á móti rúminu, sem getur verið með “fastri” mynd á og er því meira eins og listaverk. Auk þess sem það er viðarrammi á því í stíl við restina af húsgögnunum. Mér fannst því vanta eitthvað þarna undir og auk þess veitti ekkert af meira geymsluplássi. Lausnin var því að setja skóskápa í stíl við náttborðin og þeir komu svo vel út…

…við slepptum líka fótunum á skápnum, til þess að lækka þá aðeins, einföld lausn…

…svo við hliðina á skápnum settum við fataslá með snögum fyrir t.d. veski…

…mjög sneddí fyrir þá sem elska að hengja upp fötin sín og “njóta” þess að horfa á þau…

…sést vel hér hvað þetta er passlegt upp á pláss…

…nokkur smáatriði…

…leyfum einni að fylgja með af kátri konu, búin með herbergið og smá stressuð fyrir sjóferð…

…þetta var alveg hreint ótrúlega skemmtilegt verkefni að takast á við, svona fyrir utan fyrstu heimsóknina þar sem ég átti von á að andast úr sjóveikinni. En húrra fyrir sjóveikistöflum, og elsku Guðrún Veiga – takk fyrir að treysta mér fyrir rýminu þínu, og ég vona að þú sért loksins að finna þig inni í svefnherberginu ykkar ♥

Fyrir og eftir:

p.s. ef þú vildir vera svo dásamleg/ur að smella á like, svona af því að þú last póstinn og hafðir gaman að, þá yrði ég þér afar þakklát ♥

2 comments for “Skreytum Hús – 4.þáttaröð – 5.þáttur…

  1. Sigríður Ingunn Bragadóttir
    25.11.2023 at 11:16

    Vá hvað þetta er fallegt.

  2. Björg Bardadottir
    09.12.2023 at 00:36

    Glæsilegt

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *