Fermingarveisla í bleiku…

…í fyrra aðstoðaði ég yndislega vinkonu mína við að skreyta fyrir fermingu dóttur hennar. Veislan var haldin í sal á Eiðistorgi og það var svo dásamlega fallegt veður og útsýnið eftir því, þannig að mér fannst kjörið að deila með ykkur nokkrum myndum og sýna hvernig við gerðum þetta. En fyrst af öllu – kaupa inn fersk blóm því að ég elska að skreyta með þeim…

…fermingardaman á eldri systur og það var því ýmislegt til úr eldri fermingum, auk þess sem að ég á ansi mikið af alls konar. Þannig að við unnum mikið úr því sem til var. Renningarnar voru í fallega bleikum tón, og krukkurnar hafði mamman málað fyrir aðra veislu. Kertin voru skreytt af þeim mæðgum og við vorum með smá Parísar-þema og ég á auðvitað alls konar Eiffel-turna í ýmsum stærðum, en ekki hvað…

…blöðurnar voru í rose gold, fölbleiku og hvítu – svo fallegt kombó…

…stóru vasana er ég búin að eiga í mööörg ár og nota í ófáum veislum. En þeir eru svo mikil snilld þar sem maður þarf ekki mikið af blómum til þess að ná fram fallegum skreytingum. Eins er alltaf snilld að vera með upphækkun á matarborðinu til þess að setja skreytingar og bara til þess að það sé fallegra að raða á borðið…

…hér voru settir tveir kassar og dúkur ofan á þá, síðan var langur spegill settur ofan á kassana. Ofan á þetta fóru síðan kertastjakar, ljósmynd og eitthvað smálegt til skreytinga…

…glerkassar og box eru sniðug fyrir kortin, en líka bara til þess að búa til smá skreytingarmóment, eins og hér með ljósmynd og litlum barnaskóm…

…pappírsskraut hefur verið vinsælt í lengri tíma, og það er því sniðugt að geyma það á milli veisla. Hér var komið gott safn og því snilld að setja fallega upp yfir kökuborðinu. Sem stendur alveg tilbúið og bíður þess að gómsætum tertum sé skellt á diskana…

…þegar ég vinn með sali og marga blómavasa, þá stilli ég þeim fyrst upp öllum saman og raða blómunum í. Þannig gæti ég þess að dreifa jafn í alla vasa og lendi ekki í að blómin klárist og ég eigi ekki í alls staðar. Svo á maður gjarna afgang sem er þá hægt að bæta við í hina vasana, eða eins og hér – þegar að restin fær að fara í einn “auka” vasa og við fullnýtum það sem keypt er inn…

…hér sést það vel hvað upphækkunin er að gera mikið fyrir borðið…

…litlar grúbbur með blómavasa/krukku, kerti og helst Eiffel-turni fóru á flest borðin…

…það er alltaf fallegt ef hægt er að útbúa smá svona “móment” þar sem gestabókin er, passa að vera með smá skraut þar líka…

…þær voru með ótrúlega sæt lítil tréhjörtu þar sem hægt var að skrifa skilaboð/heilræði til fermingarbarnsins og setja í glerkrukkuna…

…séð frá matarborðinu yfir á gjafaborðið fyrir innan. En það er oft sniðugt að koma gjafaborðunum inn í salinn ef kostur er…

…oft þar svo lítið til þess að gera mikið, hér er renningur á borði, lítil skreyting og fánalengja…

…þessi salur bauð upp á mjög skemmtileg svæði, hér sjáum við frá matarborði yfir á kökuborðið í baksýn…

…krukkurnar eru málaðar af mæðgunum, fallegt skraut og skemmtileg minning að útbúa skreytingar með mömmu…

…hér er lítið fuglabúr notað undir kortin – sniðug lausn…

…dúkar, renningar og löberer – þetta þarf ekkert alltaf að liggja bara beint og slétt, stundum gerir það mikið meira að leyfa þeim að liggja svolítið óreglulega…

…ef þið eruð í vandræðum með að finna stóra bakka – þá er gott að hafa það í huga að speglar eru í raun bara risabakkar…

…hérna sjáið þið hvað stóru vasarnir eru fallegir á borðinum. Svo þarf ekki nema bara 1-2 blóm í þá til þess að “fylla” upp í…

…litlu barnaskórnir eru í miklu uppáhaldi hjá mér til þess að skreyta með – það er bara eitthvað endalaust krúttaralegt við þá…

…í salnum voru hillur, sem ég hugsanlega raðaði aðeins aftur í. Svo nýttum við þær fyrir mini nammibar og röðuðum fjölskyldumyndum. En það er einföld lausn til þess að gera sali persónulegri…

…en þetta þarf ekki að vera flókið til þess að vera fallegt. Endurnýtum og notum skrautið ef hægt er, og notum það sem til er í hillunum heimafyrir – það er oft ótrúlega drjúgt..

…allt tilbúið fyrir fallega fermingarveislu ♥ 

P.s. Annars langar mig líka til þess að biðja þig, sem þetta lest, að smella á like-takkann ef þú hafðir gaman að póstinum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *