Nýja strákaherbergið…

…heyrðu þetta er nú búið að taka óþarflega langan tíma. Eins gott að standa við gefin orð og setja inn póstinn um hvaðan hlutirnir eru í herbergi litla mannsins, sem er auðvitað alls ekkert lítill lengur og bara gaur. 11 ára herramaður átti draum um að breyta herberginu sínu og við ákváðum að koma honum á óvart þegar hann var búin að vera á skátamóti í 4 daga. Hann kom heim og fékk fyrirfram afmælisgjöf sem var sem sé gjörbreytt herbergi.

Smella hér fyrir forsmekks-póstinn!

Athugið að fyrirtækin sem eru feitletruð í póstinum eru þau sem ég er í samstarfi með!

Hér sjáið þið svona hvernig herbergið var, rétt áður en ég reif allt út úr því. Ekkert uppstillt og bara hraðar símamyndir. En herbergið var orðið ansi þreytt og vantaði smá ást og umhyggju…

…svo er það alltaf þetta magnaða fyrirbæri – að um leið og maður snertir við einu rými þá springur allt hitt á meðan. Merkilegt nokk…

…herbergið var málað í Gauragráum og rendurnar voru í Kózýgráum – báðir litir í litakortinu mínu hjá Slippfélaginu. En við vorum búin að hlera helstu óskir unga mannsins og hann var búin að tala um að vilja gráa veggi. Svo var hann líka búin að segjast vera hrifin af litinum í skrifstofunni, en þar er einmitt Kózýgrár á öllum veggjum. Elskulegur eiginmaðurinn fór því í það að pússa yfir rendurnar, sem hann vandaði sig svo mikið við fyrir nokkrum árum, notaði pússmús og þurfti að fara nokkrar umferðir til þess að ná þeim niður og gæta þess að þær væru ekki sýnilegar/upphleyptar þegar málað var yfir. Snilldin var líka sú að Kózý er það mikið dekkri að ein umferð var allt sem þurfti og því tók málningarvinna skemmri tíma en við gerðum ráð fyrir.

Ég vissi að hann var hrifin af strákaherberginu sem ég gerði í seinustu seríu af SkreytumHús-þáttunum, og við vorum ákveðin í að gefa honum stærra rúm, og mér fannst þá vera kjörið að nýta fallega panilinn frá Byko og nota þá sem bæði veggskraut og í raun sem rúmgafl. Hvor plata er 60cm á breidd og tvær voru þá pörfekt yfir rúminu…

Ég vildi síðan gjarna nota vegghilluna frá Rúmfó yfir skrifborðinu, svona til þess að spegla panilinn. Fyrsta plan var að nota 2-3 stk en mér fannst það of yfirþyrmandi þegar að á botninn var hvolft, því herbergið er alls ekki stórt. Ein varð þá fyrir valinu, en ég vildi að hún myndi líkjast panilinum og því var farið í prufur og pælingar til þess að finna rétta litinn. Hér er verið að nota Hnotubæs til þess að prufa…

Hér er komin ein umferð með hnotunni og svo pússaði ég aðeins yfir. Fannst það ekki nógu gott. Sneri hittunni við og ákvað að mála alveg bakhliðina svarta og alls staðar í raun nema framhliðarnar. Svo fór ég aðra umferð með hnotubæsinu yfir frontinn og þá fannst mér þetta farið að nálgast panilinn. Ekki alveg eins, en nokkuð nærri lagi…

Við keyptum rúmbotn í Rúmfó, en ákváðum að kaupa líka hærri fætur undir rúmbotninn, svo hægt væri að vera með geymslur þar undir. Fæturnir eru stállitir, en ég vildi endilega hafa þá svarta eins og botninn. Fyrsta plan var að spreyja þá, en þar sem þarna eru 11 ára guttar að draga til geymslur þá vissi ég að það myndi fljótt fara að sjá á þeim – lausnin var þá bara að filma þá. Ofur einfalt og þolir ýmislegt…

Ég vildi líka gera smá svona ævintýri, sem væri samt einfalt að taka niður eða breyta – og setti því ljósaseríu fyrir ofan rúmið…

Eiginmaðurinn er alltaf mjög nákvæmur, og notar alltaf leizer-inn til þess að gæta þess að allt sem beint og rétt…

Ég ákvað að nota snagabretti frá Húsgagnahöllinni fyrir ofan rúmið til þess að geta auðveldlega breytt til og leikið aðeins með það…

Ég leitaði að einhverju sniðugu við endann á rúminu, til þess að geta geymt dót í – og svo væri líka hægt að setja sjónvarp þarna ofan á ef hann vill. Þessi hilla var í Dorma og mér finnst hún alveg geggjuð. Ég fann hana því miður ekki á netinu en ég veit að það var ein eftir í Dorma í Holtagörðum

Ég vildi líka finna eitthvað sem var svoldið svona fyndið og skemmtilegt, en líka fallegt og þessi hérna api smellpassaði inn í það. Enda varð sonurinn yfir sig hrifin af þessum…

Útkoman varð svo þessi, þegar allt varð komið saman.
Mottan er snilld til þess að gera rýmið enn meira kózý…

Ofan á rúmbotninn frá Rúmfó fór síðan dýna sem við keyptum í Dorma. Sérlega ánægð með hana, en sonurinn var með frekar lélega dýnu áður og ég er svo ánægð með þessa, svo það sem meira er – hann er alveg himinlifandi með hana…

Við erum búin að eiga þennan hjólavagn í nokkur ár, og hann hefur gengt hlutverki náttborðs í dágóðan tíma…

En ég vildi samt fá meira borð úr honum og keypti því trébretti Ikea sem er sniðið ofan á. Fór létt með pússmús yfir og setti smá hnotubæs til þess að aðlaga litinn betur…

Einn af draumunum var nýr skrifborðsstóll, og hann var svo heppin að fá slíka frá ömmu sinni og afa í afmælisgjöf. Þessi er alveg geggjaður, með stuðningspúðum og já – það er skemmst frá því að segja að hann varð ofurkátur með hann…

Skrifborðið er síðan búið til úr borðplötu, fótum og skúffueiningu frá Ikea…

Veggurinn yfir skrifborðinu er síðan með hillum og skrauti…

Dýrin voru keypt ný en allt hitt hefur verið til í lengri tíma hjá okkur…

Einfalt og fallegt, auðvelt að breyta – mér líka það alltaf…

Hillan er líka alveg gjörbreytt eftir að vera bæsuð og máluð…

Fataskápurin stendur við hurðina og þar við hliðina er hillan frá Dorma

Ég er mjög ánægð með hvernig hún kemur út, svo falleg…

Litlu hlutirnir skreyta – hauskúpan fannst líka í Hagkaup…

Púðinn með elsku Raffa er ennþá í aðalhlutverki á rúminu, annað kæmi ekki til greina hjá þessum unga manni…

Ég er líka ánægð með að við völdum borðplötu með marmaraútliti, við vorum áður með hvíta og það sást svo mikið á henni, og þessi er mikið betri upp á það að gera. Mér finnst alltaf möst að hafa það í huga, þegar maður er að velja svona inn…

Litir og áferðir, gaman að sjá þetta svona saman…

Ég er svo ótrúlega ánægð með að við gátum látið drauminn hjá þessum yndislega strák okkar rætast…

Beinir hlekkir hér fyrir neðan – smellið á feitletraða textann!

Ef þú ert hérna enn, að lesa þennan maraþon-póst, þá bara þakka ég kærlega fyrir. Svakalegt hvað þetta getur orðið langt þegar maður reynir að týna allt til 🙂 Eigið yndislega helgi ♥

ps. þætti vænt um að þið mynduð smella á like-hnappinn ef þið höfðuð gaman af póstinum og ekki væri nú verra að heyra aðeins frá ykkur!

4 comments for “Nýja strákaherbergið…

  1. Erla
    11.03.2022 at 22:28

    Má ég spyrja um verð á þessari breytin💙💙💙

    • Soffia - Skreytum Hús...
      14.03.2022 at 22:45

      Við tókum það ekki saman neitt sérstaklega í lokin.

      Það er líka svo margar breytur í svona sem geta breytt útkomunni á verðinu, hvaða rúm er valið, hvaða fylgihlutir.

      En það er hlekkur á flesta hlutina og því hægt að týna það saman að mestu 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *