Vínstofa Friðheima…

…þessi júlí er að leika við okkur, veðurlega séð loksins!
Við skelltum okkur því í dagsferð austur og vorum með hugann við að kíkja á Friðheima…

…en það er alltaf jafn gaman að koma við hjá Knúti og Helenu og fjölskyldu þeirra og sjá hvað allt blómstrar – í orðsins fyllstu merkingu – í kringum þau…

…getum við tekið augnablik til þess að dáðst að þessum sólblómum sem eru á stærð við matardiska að minnsta kosti…

…við kíktum líka á völlinn þar sem hestasýningarnar eru, og þar er hægt að renna sér í hnakkinn og fá sér veigar…

…en við vorum líka þvílíkt spennt fyrir að kíkja á nýjustu viðbótina þeirra sem er Vínstofa Friðheima. En það eru einmitt Knútur og Helena, dóttir þeirra Dóróthea, og maðurinn hennar, Kristján, sem standa að Vínstofunni.

…en hugmyndafræðin á bakvið þetta er ótrúlega skemmtileg. Þetta er í senn eins og nafnið gefur til kynna: Vínstofa, þar sem er hægt að versla sér bæði mat og drykk.

En þar að auki eru nokkur fundarherbergi/einkastofur, svið og margir möguleikar til þess að nýta þetta pláss bæði til veisluhalda, sem og fyrir atburði eins og tónleika og slíkt…

…um leið og þú kemur inn þá ertu bara hreinlega komin í annan heim. Þetta er alveg einstaklega fallegt og vel heppnað að öllu leyti…

…við vorum þarna í 22° stiga hita sem ýtti enn fremur undir tilfinninguna að við værum hreinlega komin á suðrænar slóðir og í einhvern allt annan heimshluta…

…barinn er pottþétt sá þyngsti á landinu, gerður úr grjóti úr sveitinni og vegur um 10 tonn. Eins kemur timbrið sem í hann er notað úr trjánum sem þurfti að víkja fyrir nýjum gróðurhúsum, þannig að það er verið að nýta þann efnivið sem fyrir var…

…það er svo eitthvað við þessa blöndu af grófu efni, steyptum gólfum og útihellum, með rustic leðurstólum og timbri – sem blandast við gróðurinn sem er þegar tekinn að þekja loft og veggi – sem myndar hreint ómótstæðilegan kokteil…

…þið sjáið bara hvað þetta er að koma dásamlega út…

…ég sé líka hreinlega fyrir mér að fólk þurfi ekki lengur að leita til Ítalíu til að halda brúðkaupin, það er einfaldlega hægt að skella sér bara beint á Friðheima…

…allar þessar dásamlegu innbundnu bækur og kristalsljósakrónur eru síðan alveg geggjaðar með…

…fjölskyldan brá sér til Hollands til þess að versla inn falleg antíkhúsgögn, og þetta eru munir sem eru hver öðrum fallegri…

…það eru öll þessi dásamlegu smáatriði sem eru að gera svo mikið þarna inni…

…bækurnar koma að mestu leyti frá fólkinu í sveitinni sem hafa verið að gefa þeim gamlar og fallegar bækur til skrauts og til að njóta…

…og svo má njóta glæsilegra veitinga, bæði matar og drykkjar, auk þess sem vínlistinn er gríðarlega flottur og metnaðarfullur…

…sjáið bara þetta borð – hversu fallegt…

…og alls staðar er hlúð að og hugsað fyrir stófu og smáu…

Vínstofa Friðheima er opin alla daga 13-22, það þarf ekki að bóka fyrirfram og allir eru velkomnir.

Ég mæli svo sannarlega með heimsókn, í það minnsta er það langt síðan ég hef orðið svona heilluð – þetta er alveg hreint draumur!

ps. þætti vænt um að þið mynduð smella á like-hnappinn ef þið höfðuð gaman af póstinum og ekki væri nú verra að heyra aðeins frá ykkur!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *