Hreinsað til…

Það kemur að því hjá flestum, að maður finnur þungann af því sem maður hefur safnað að sér.  Stundum er hægt að hrista það af sér, en stundum – er þarft að gera bara góða hreinsun.

Ég er búin að standa í þessum gjörðum undanfarnar vikur, og er enn að. Þetta er ferli, þetta tekur tíma, og já – ótrúlegt en satt – þetta tekur virkilega á.

En sannleikurinn er sá, að þegar maður fer af stað og lætur reyna á þetta –  þá fer þetta næstum – ég sagði næstum – að verða skemmtilegt.  Þegar að árangurinn sést, þá er skemmtilegt.

En áður en maður sér árangurinn, þá er þetta um það vil svona – og svo verra :/
Ég ætla að skrifa reyna að gera sérpóst um bílskúrsævintýrið mitt og hvernig ég tæklaði hann.
En hér er einn svona almennt um hvernig er kannski best að byrja.
Fyrst af öllu, komið ykkur upp kössum/pokum:
*Gefa einhverjum sem getur notað
*Góði hirðirinn/Sorpa
*Pappírrusl
*Plastrusl
*Almennt rusl
Svo þarf að flokka og flokka og flokka…

Safnið/söfnin:
Ef þið eruð eins og ég, þá safnið þið ákveðnum hlutum.  Svo líður tíminn og það kemur í raun að því að söfnunin er í raun ekki lengur að vekja hjá þér gleði, og þú ert næstum á sjálfstýringu.  Þú ert að safna þessu af því að þú hefur alltaf safnað þessu.  Ef sú er raunin þá er tímabært að fara yfir safnið, finna þá hluti sem þér þykir vænst um/þykir fallegastir/hafa mest tilfinningalegt gildi, og losa þig við rest.  Stundum er hægt að selja og jafnvel fá smá pening til baka, það eru til safnarahópar á Facebook sem að er kannski hægt að finna einhverja sem safna því sama og væri glaðir að bæta við sitt.  En stundum, þá er bara að fara með þetta í Góða Hirðinn í Sorpu.

Brotnir hlutir:
Almenn þumalputtaregla er, ef það er brotið – láttu það fara.  Þú ert ekkert að fara að líma aftur eyrað á styttuna, eða nota diskinn sem er með sprungu. Þetta er ákveðin hugsun um nýtingu sem býr í manni, að reyna að nýta þetta áfram – en nú er lag: láttu þetta fara!

Ættargripir:
Þessir geta verið erfiðir.  Það er ekki gott að fá styttuna hennar ömmu, sem þér hefur kannski aldrei líkað við, og finnast þú “þurfa” að stilla henni upp.  Ef hlutir eru erfðagripir, en eru ekki að veita þér gleði – er kannski hægt að finna aðra ættingja og leyfa þeim að njóta?  Eins manns drasl er annars gleði – hljómar það ekki einhvern vegin þannig?

Pappírinn:
Það sem hann er nú fljótur að safnast upp – þessi blessaði pappír.  Farðu yfir hrúgurnar!  Taktu bunkann inn í stofu eða fyrir framan tölvuna og horfðu á þátt og reyndu að vinna þig í gegnum þetta.  Skiptu þessu í geyma af nauðsyn (nótur og leiðindi), geyma af löngun (ljósmyndir og annað sem skiptir máli – má kannski smella mynd af einhverju og láta það svo fara?) og endurvinnslu. Þú átt ekkert eftir að kíkja á hitaveitureikninginn frá því í fyrra, það er alveg bókað.
Allir bæklingar ættu að geta farið beint í endurvinnslu.
Teikningar barna eru erfiðari, en ef þú ert ekki með ca dagsetningu (nóv 2017 eða bara 2017) á myndunum þá missa þær svolítið marks, og þetta getur auðveldað þér að losa einhverjar úr bunkanum og setja í endurvinnslu.  Sumir hafa verið að taka myndir af teikningunum, en mér finnst þær ekki duga – því oft er svo skemmtilegt að sjá almennilega hvernig þetta var teiknað og allt í kringum myndina.  En eins og með þetta allt – þá þarf hver að ákveða fyrir sig.

Bernskuminningar:
Fatnaður, bangsar og allt hitt.  Mér ferst að tala, því það er poki af böngsum á háaloftinu, frá því ég var lítil. Eeeeeen, þegar að farið verður í háaloftið í sumar – þá fær hann að fjúka.  Það er enginn að njóta þess, það er enginn sem fær neina gleði frá böngsum sem húka í poka.  Veldu 1, ef þörf krefur, uppáhaldið þitt, og gefðu restina í Góða Hirðinn.  Það sem ég reyni að segja sjálfri mér er að 1-2 stk verða dýrmætir, margir eru drasl.
Sama á við um fatnað – þetta geymist ekki endalaust á milli áratuga.  Veldu vel – skírnarkjólar, prjónaföt og kannski eitthvað sem var notað í myndatökur og því gaman að skoða með myndum. Leyfum restinni að fara.

Fría dótið:
Þið vitið, alls konar “drasl” sem þið hafið fengið gefins hér og þar. Lyklakippur og alls konar smádóterí, bæklingar og annað slíkt.  Leyfum þessu bara að fara.
Vonandi verður þetta einhverjum innblástur – ég get nefnilega lofað að það er erfiðast að byrja!

En maður minn, þegar þið finnið dótið minnka – það er dásemdar tilfinning!

 

4 comments for “Hreinsað til…

  1. Birgitta Guðjons
    03.05.2018 at 10:19

    Já þetta er svo satt og rétt…….alltaf gott að minnka við sig dót……en erfitt að ákveða sig….”mín reynsla”……en gott að vita ef hægt er að nýta af öðrum……Mitt motto til allra…….Hugsið áður en þið hendið…!!!!!!!!!…..Það sem einum finnst drasl…getur öðrum reynst gersemi……Eigðu góðan dag…..

  2. Margrét Helga
    03.05.2018 at 10:53

    Þessi póstur kom akkúrat á rétt um tíma. Takk ❤

    Kv. konan sem er alltaf aaaaaaalveg að fara að byrja á að fara í gegnum draslið 😉

  3. Gróa
    05.05.2018 at 08:53

    Og svo má alltaf athuga hvort einhverjir leikskólar hafa áhuga á ´draslinu´ – alla vega notum við í leikskólanum Austurkór í Kópavogi mikið af svokölluðum verðlausum efnivið bæði í leik og sköpun 🙂

    • Soffia - Skreytum Hús...
      06.05.2018 at 02:12

      Ég hef alltaf safnað öllu sem mér datt í hug að væri nothæft til föndurs og slíks, og farið með í leikskólann. Sama má segja um leikföng og bara fatnað sem gæti hentað til grímubúninga, gömul veski og slíkt.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *