Tenerife 2022 – pt.1…

…ég er alveg farin að slugsa að setja inn ferðalögin okkar hingað inn, en engu síður – hér kemur smá samantekt af ferðinni okkar til Tenerife í fyrrasumar. Veitir kannski ekki af að rifja upp smá hita og sól, svona þar sem við erum ekkert alveg að tapa okkur yfir veðrinu hér í sumar…

…flogið af stað í suðurátt og eins og svo oft áður, þá býður ferðalagið upp á falleg myndatækifæri…

…þar til hún blasti við augum, eyjan fagra sem ferðinni var heitið til…

…við bókuðum okkur hótel sem heitir Gran Oasis Resort og er í hæðunum fyrir ofan Amerísku ströndina, sem kom ekki að sök fyrir okkur þar sem við vorum með bílaleigubíl allan tímann.

Lýsing á hóteli skv. Tango Travel:
Gran Oasis Resort er mjög gott fjölskylduhótel og þykir með þeim bestu á Tenerife.Hótelið er staðsett ofarleg á Amerísku ströndinni með frábært útsýni. Garðurinn er fallegur og gróðursæll með tveimur sundlaugum og lítilli barnalaug. Góð sólbaðsaðstaða, bar og snakkbar er í garðinum. Leiktæki fyrir börnin og supermarkaður sem selur helstu nauðsynjar. Krakka klúbbur er yfir daginn með fjölbreyttri dagskrá. Á kvöldin er mini disko og tekur síðan við fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Það tekur um 10-15 mínútur að ganga niður í bæinn en hótelið er með rútu sem keyrir í bæinn nokkrum sinnum yfir daginn gestum að kostnaðarlausu

Mitt mat á hótelinu:
Hótelið er bara hið þokkalegasta. Það var allt snyrtilegt, en miðað við að vera talað um lúxus hótel þá átti ég í raun von á meiru. Það var mjög mikil dagskrá á kvöldin, en það er reyndar eitthvað sem sækjum lítið eftir og fórum alltaf út að borða á kvöldin. Hótel er staðsett í hæðum, eins og tekið er fram í lýsingunni, og því mikið af tröppum og alls ekki fyrir þá sem eiga erfitt með gang eða eru t.d. með barnakerrur og slíkt. Við bókuðum herbergi fyrir okkur öll 4 saman, og áttum von á tveimur eða þremur rúmum fyrir okkur, en þess í stað var hjónarúm en fyrir krakkana bara ferðabeddar. Það var alls ekki þægilegt eða vinsælt, eflaust fínt fyrir minni krakka en þessi eru bæði orðin hálffullorðin. Talandi um tröppur þá voru líka tröppur inni í herbergjunum, en hjónaherbergin voru á neðri hæð og stofa/eldhús á efri hæð. Við fengum að skipta um herbergi og þið fáið að sjá myndir af þeim báðum í næsta pósti…

…morgunmatur var innifalin og mjög fínn bara, allt til alls og endalaust úrval. Þetta fannst okkur mjög þægilegt því flesta daga borðuðum við morgunverð og svo var bara létt snarl í hita og sól og svo kvöldverður…

…stór ókostur við hótelið, sem er reyndar hjá mörgum hótelum sem erum með sólbaðsaðstöðu, þá var þessi leiðinda eltingaleikur við sólbekkina. Mjög svo leiðinlegt að þurfa nánast að fara af stað við fyrsta hanagal til þess að planta handklæðum á bekkina. Ég hló reyndar einn morguninn þegar ég kom niður um kl 7 og rakst á breskan föður sem var greinilega í sömu erindagjörðum og lá sofandi undir handklæðahrúgu á bekk í fósturstellingunni. En hey, hann náði bekkjum…

…en svona að því slepptu þá er lífið alltaf dásamlega ljúft svona í hita og notalegheitum – þennan fyrsta dag var reyndar ekki sól en þó brunnu sumir…

…alltaf gaman að skoða inn í litlar strandbúðir, sjá allt þetta skrítna og skemmtilega sem manni fer að langa í í frí, en passar eflaust hvergi þegar heim er komið 🙂

…feðgar á bekk í djúpum pælingum…

…nú og þegar við náðum bekk, sem var nú held ég alla daga nema 1 – þá var þetta svo sannarlega hið ljúfasta líf. En það var reyndar algjörlega möst að fá líka sólhlíf til þess að bakast hreinlega ekki…

…það er líka eitthvað sem huggó við að gefa sér tíma í smá punterí og fara svona út á kvöldin…

…í einum af fjöööööööööööölmörgu tröppunum, en mig minnir að það hafi verið 3-4 svona upp að fyrsta herberginu sem við vorum í…

…GRADI • Pizzeria Napolitana y Cerveceria var með mjög góðar pizzur og við sátum úti og nutum þess að borða…

…allt var vel útilátið, en Svali Kaldalóns hafði mælt með þessum stað og ég held hreinlega að það hafi bara verið íslendingar þarna 🙂

…við komum svo stutt við í Siam Mall og ég stökk inn í Zara Home og þar er alltaf til hellingur af fallegu stöffi…

….þessi blái himin, hiti og sól – ég væri alveg til í þetta líf núna…

…og enn og aftur út að kveldi, við fundum okkur tilneydd til að nýta þessar tröppur í pósur…

…við ströndina settumst við inn á Corinto veitingastaðinn, þar fengum við skelfilegan mat en æðislegt útsýni og gaman að sitja þarna í mannlífinu. Mæli með að nota hann frekar bara í drykki eða í það minnsta eitthvað annað en steikina…

…kvöldgangan í fegursta sólarlagi…

…síðan ákváðum við að keyra hinum megin á eyjuna og kíkja þar í Loro Parque-garðinn

…það er ótrúlega gaman að keyra svona yfir á hinn helming eyjarinnar og sjá landslag og loftslag breytast. Fallegt er það samt, og sjáið þessar hotensíur…

…þið eruð farin að sjá smá þema í þessu, ekki satt? Hvíld – matur – skemmtun…

…og talandi um skemmtun, þá fóru þessi í Go Kart…

…ROSSO SUL MARE Restaurant & Wine Bar var síðan veitingastaður kvöldsins, og hann er staðsettur á æðislegum stað í La Caleta. Þetta var mjög góður matur en í raun kannski full svona “fansí” matur. Dóttirn fékk réttin sem eru í raun svona þrjú pasta á sósu, og eiginmaðurinn fékk sýnishorn af lasagna. En allt var gott og staðsetningin æðisleg til þess að rölta um eftir matinn…

…það var í raun svona Mamma Mia stemming þarna, ofsalega fallegt…

…það er að verða svo mikið þema í þessu 🙂

…hér sjáið þið famelíu sem elskar churros, en hver elskar svo sem ekki churros…

…að sjálfsögðu var froðudiskó á hótelinu, en ekki hvað!

…mæðgin…

…á “Laugaveginum” eins og allir hinir…

…og svo kemur einn póstur til, og þar eru myndir af hótelherbergjum og meira slíkt. Vona að þið hafið haft smá gaman að og endilega skellið á mig spurningum ef einhverjar eru!

ps. þætti vænt um að þið mynduð smella á like-hnappinn ef þið höfðuð gaman af póstinum og ekki væri nú verra að heyra aðeins frá ykkur!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *