Skreytum Hús – 3.þáttaröð – 6.þáttur…

…Þá er komið að síðasta þættinum í 3.þáttaröðinni. En þættirnir voru 6 rétt eins og í hinum seríunum, og koma inn samtímis á Vísir.is og á Stöð2+.

Smella hér til þess að horfa á þátt nr. 6 á Vísir.is
og þátturinn er líka á Stöð 2+!

Ég mæli að sjálfsögðu með að horfa á þáttinn áður en pósturinn er lesinn…

Þar sem þetta er seinasti þátturinn í þessari seríu og við erum að nálgast jól þá langaði mig mikið til þess að vera með annan góðgerðaþátt, rétt eins og þegar við réttum Hlaðgerðarkoti hjálparhönd í fyrstu seríunni (sjá hér). En þetta er að sjálfsögðu verkefni sem ekki er hægt að vinna nema með samstarfi mínu við þessi frábæru fyrirtæki sem koma að þáttunum með mér. Þannig að eftir að hafa rætt við Byko, Dorma, Húsgagnahöllina, Rúmfatalagerinn og Slippfélagið, og hafa fengið vilyrði frá þeim öllum þá var farið í að finna verðugt málefni sem væri hægt að styðja við og hjálpa.

Smellið hér til þess að skoða heimasíðu Mia Magic!

Ég var búin að fylgjast með Mia Magic í þó nokkurn tíma, en þetta er nýtt góðgerðafélag sem styður við langveik börn og foreldra þeirra. En ég vissi að starfssemi þess væri alfarið í höndunum á stofnanda Miu, henni Þórunni Evu G. Pálsdóttur, og svo bættist hún Fríða Björk Arnardóttir við núna á þessu ári. Ég hafði því samband við Þórunni til þess að kanna hvort að það væri eitthvað hægt að gera til þess að aðstoða þær, og þar sem lífið er fullt af litum tilviljunum þá voru þær einmitt að fá afhent nýtt vinnupláss og vantaði svo sannarlega hjálparhönd við að gera það fallegt og nýtanlegt…

Mia Magic er nýtt góðgerðarfélag sem einbeitir sér að því að gleðja langveik börn og foreldra þeirra ásamt því að gefa út fræðslubækur. Einnig einblínum við á allt það jákvæða sem er að gerast í heimi langveikra barna. Allir sem koma að Mia Magic á einn eða annan hátt gefa vinnu sína, byggist upp á sjálfboðastarfi.

Mia Magic hefur gefið út bókina Mia fær lyfjabrunn, sem er gefin til þeirra barna sem eru að ganga í gegnum það sama og hún Mía litla í bókinni. Í hverjum mánuði eru svo gefin Míuboxin til langveiks barns, auk þess að foreldraboxin bættust við, og eru þau þannig að þau eru sérvalin fyrir þann sem boxið fær. Þetta er því afar persónuleg, falleg og þýðingarmikil gjöf. Þær hafa líka verið í afar fallegum samstörfum við fyrirtæki og gefið út sérmerkt hálsmen, kerti og ýmislegt annað til þess að safna fjármagni.

img_4549
Mynd fengin af heimasíðu Mia Magic

Smellið hér til þess að lesa um hana Söru Natalíu sem fékk fyrsta Miuboxið!


Þar að auki eru Míu verðlaunin veitt árlega:
Míuverðlaunin eru verðlaun til að heiðra þá sem koma að þjónustu langveikra barna á einn eða annan hátt. Einhver sem hefur hjálpað eða stutt við þig og þína fjölskyldu á erfiðum tíma. Það sem þeim finnst vera “bara vinnan sín” getur skipt sköpum fyrir aðstandendur langveikra barna og börnin sjálf. Hægt er að tilnefna heilbrigðisstarfsmann í hvaða starfstétt sem er, hvar á landinu sem er. 

Einnig verð ég að minnast á það að bara í seinustu viku fékk hún Þórunn heiðurinn af því að vera valin Framúrskarandi ungur Íslendingur, verðlaun sem veitt eru árlega af JCI Íslandi, eru fyrst og fremst hvatningarverðlaun til ungs fólks sem er að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni. Þetta er hvatning og viðurkenning fyrir ungt fólk sem kemur til með að hafa áhrif í framtíðinni – smellið hér til þess að skoða heimasíðuna fyrir verðlaunin.

Yndislegt að sjá konu sem er að vinna svona frábært og göfugt starf fá þessa viðurkenningu – ég er alveg ótrúlega stolt af henni ♥ ♥

Mynd fengin af Instagramsíðu Þórunnar

Mia Magic var að fá aðstöðu fyrir starfssemi sína í Íshúsinu í Hafnarfirði, sem er alveg hreint ótrúlega spennandi. Endilega smellið hér, til þess að skoða eldri póst um Íshúsið. Við hittumst til þess að fara yfir rýmið og sjá hvað þyrfti helst að vera þarna inni, til þess að þjóna þeim sem best og skellum okkur því bara beint í fyrir-myndirnar…

…þegar ég var að vinna rýmið þá fór ég mikið út frá heimasíðu Mia Magic og svo Instagraminu þeirra. En það er allt svona létt og ljóst, svoldið skandí og ég vildi endilega hafa plássið í þeim anda.

Við vissum að það yrði að mála veggina og það var eiginlega engin spurning um hvaða litur yrði fyrir valinu. Sandur frá Slippfélaginu er svo einstaklega mildur og fallegur, og því alveg fullkomin í hlýleikan sem við vildum þarna inn:

…en eitt af svona “stóru” vandamálunum var allt “ljóta dótið” sem var uppi við loftið. Snúrur, stokkur og ýmislegt annað sem við vildum alls ekkert vera að hafa fyrir augunum…

…ef nokkrar pælingar þá ákvað ég að nota alveg geggjaðan nýjan panil frá Byko til þess að gera “stokk” yfir “ljótuna.

Smella hér til þess að skoða panilinn hjá Byko!

Þetta er finnsk fura sem er hægt að nota bæði utandyra og innanhús. Umhverfisvæn finnsk fura og greni

En þetta var svona einfaldasta leiðin til þess að fela það sem við vildum ekki hafa fyrir augunum auk þess að búa til svona hlýlegt og fallegt andrúmsloft þarna inni. Þetta er auðvitað bara “einfaldur kassi” þetta litla rými, og með því að gera þetta svona – þá bjuggum við til eftektarverða lausn sem gerði mikil fyrir rýmið allt…

Moodboard fyrir rýmið

…eins og alltaf, þá ferðast ég ekki létt þegar það kemur að mínum verkefnum…

…og svona þá fæddist fallega rýmið fyrir Mia Magic í Íshúsinu…

…eins og þið sjáið strax – þá er stokkurinn að gera svo mikið þarna inni. Hann kemur með hlýleika um leið og maður lýtur plássið augum…

…eikarhillurnar frá Rúmfó eru líka rosa fallegar og massífar og smellpassa við stokkinn okkar góða…

…og þær leyfðu okkur líka að stilla upp öllum þessum fallegu vörum sem koma til með að prýða Miuboxin á næstu mánuðum. En það er nú um að gera að leyfa þessum fallegu hlutum að njóta sín. Í hillunni standur líka hún Mía litla sjálf, en þetta bangsi sem er væntanlegur á næstu mánuðum – dásamlegur…

…ég vildi ná fram svona ljósum og léttum fíling og vildi því endilega vera með fallega hvíta mublu þarna á milli eikarhillanna. Ég fann þennan fallega háglans skenk í Rúmfatalagerinum og hann var alveg í fullkominni stærð þarna á milli. Svo voru lokaðar skúffur og skápar, þannig að hann bauð upp á mikið geymslurými sem var vöntun á…

…við náðum fram hlýleika í rýminu með litinum á veggjunum, stokkinum úr Bykopanilinum og svo þessari fallegu mottu frá Húsgagnahöllinni. Það gerði svo ótrúlega mikið þarna inni…

…mottan er líka alveg einstaklega falleg, í stærðinni 200×300…

…við vildum ekki vera of formleg, frekar heimilisleg og vera með aukasæti þarna inni, og þessi fallegi og netti hægindastóll frá Húsgagnahöllinni smekkpassaði alveg inn…

…ég var líka svo mikið að elska þessa veggspeglahillur frá Húsgagnahöllinni, en mér finnst þær alveg einstaklega fallegar. Þær eru svona eins og skartgripir á veggina…

…ég setti síðan hjólaborðið fallega frá Rúmfatalagerinum, en það var upplagt fyrir kaffibollana og í framtíðunni fer jafnvel bara kaffivélin sjálf þarna ofan á…

…fer lítið fyrir þessu, en býður upp á kózý aðstöðu til þess að setjast með tölvuna – nú eða bara setjast og spjalla…

…rétt eins og speglarnir eru eins og skart – þá eru þessi loftljós það líka. Þetta eru bara ódýr loftljós frá Byko og fallegar skrautperur í og þetta gerir svo ótrúlega mikið þarna inn. Ekki vanmeta hvað er hægt að breyta miklu með því bara að skipta um perurnar…

…við vildum gera aðstöðu fyrir tölvur, en það þurfti líka að vera pláss til þess að pakka niður í Miuboxin…

…mér fannst einfaldasta lausnin að fá bara fallega hvíta borðplötu frá Byko sem myndi einfaldlega ná endanna á milli. En þetta er einföld og góð lausn, og endalaust mikið úrval til af fallegum borðplötum sem er hægt að fá sagaðar niður í réttar stærðir…

Svo var notaður afgangur af panil fyrir ofan, svona til þess að gera þetta massífara og hlýlegra….

…við vorum með plötuna smá frá veggnum til þess að koma snúrum niður á milli og fallegu borðlamparnir eru frá Rúmfatalagerinum...

…það eru engar réttar línur í húsinu, ekki gólfið og ekki veggirnir – þannig að við vildum ekki vera með stóla á hjólum. Ég var alveg ákveðin í að rétta lausnin væri að finna fallega og þægilega borðstofustóla. Í Húsgagnahöllinni fann ég þessa æðislega fallegu velúrstóla, sem voru á snúningsfæti og því alveg gordjöss lausn þarna inn…

…þessi blómahengi frá Húsgagnahöllinni gerðu síðan alveg ótrúlega mikið til þess að “loka” horninu á básnum og gera meira kózý stemmingu…

…ég verð að segja að ég er ótrúlega ánægð með útkomuna…

…nóg af plássi fyrir alla fallegu hlutina…

…sitthvað sem gerir smá svona kózýfíling…

…og það að fá síðan skiltið á vegginn gerði alveg punktinn fyir i-ið…

…hún Þórunn reddaði skiltinu inn í rýmið – en það gerði líka svo ótrúlega mikið. Hann Axel, eigandi Velmerkt.is, var svo elskulegur að redda því með stuttum fyrirvara – og það er alveg einstaklega fallegt og vel heppnað!

…rammað inn með fallegu vösunum frá Húsgagnahöllinni

…og svo glerkassinn frá Dorma og ljósin frá Byko

…en glerboxið er falleg leið til þess að stilla upp smáhlutunum…

Ef þið viljið gerast styrktaraðilar fyrir Míuverðlaunin og ef þitt fyrirtæki vill hjálpa til við að fjármagna Míuverðlaunin endilega hafðu samband með því að senda póst á info@miamagic.is eða hringja í síma 772-9600.

Elsku Þórunn og Fríða, takk fyrir að taka á móti mér og treysta mér fyrir plássinu ykkar – vona svo sannarlega að þetta verði ykkur til góða um ókomna tíð ♥

Fyrir og eftir myndir, hlið við hlið…

….það er einlæg ósk mín að þetta verði til þess að hjálpa Mia Magic, og Þórunni og Fríðu, að halda áfram þessu frábæra starfi sem þær eru að vinna – að betri aðstaða geri þeim kleyft að halda áfram að vaxa og dafna!

Svo auðvitað enn og aftur hjartans þakkir til Byko, Dorma, Húsgagnahallarinnar, Rúmfatalagersins og Slippfélagsins – en þetta hefði ekki getað orðið að veruleika án ykkar hjálpar ♥

p.s. ef þú vildir vera svo dásamleg/ur að smella á like, svona af því að þú last póstinn og hafðir gaman að, þá yrði ég þér afar þakklát ♥

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *