Nýtt ár og takk fyrir það gamla…

…enn á ný tökum við á móti nýju ári, og nú – nýjum áratugi.
Ég breyti ekki út af laginu og er mjög meyr í hjarta, enn meira í ár en áður.
Jólin hjá okkur einkenndust af veikindum og sorg, þar sem við kvöddum elskaðann fjölskyldumeðlim, og sendir það mann ansi beygðan og auðmjúkan inn í nýja árið.

Nýtt ár er samt alltaf ný byrjun og gefur manni tækifæri til þess að stokka spilin á nýjan leik. Ég er endalaust þakklát eins og alltaf fyrir fólkið mitt, hvort sem það er fjölskyldan eða vinir, það skiptir öllu máli að vera með gott fólk í kringum sig! Eins og alltaf þá er mitt þakklæti til ykkar líka endalaust. Það eruð þið sem leggið leið ykkar hingað inn sem gerið mér kleyft að vinna við það sem mér þykir svo skemmtilegt, það sem er ástríðan mín í lífinu og það er ómetanlegt.

Ég segi því bara það sama og áður:

Ég hef ávalt gætt þess að halda í mín gildi, að vera sjálfri mér samkvæm og trú því sem ég lagði upp með í byrjun. Ég er sannfærð um það að það þurfi ekki alltaf að versla það dýrasta eða fljóta með strauminum til þess að eignast það heimili sem veitir ykkur mesta ánægju. Ég vona að ég geti haldið áfram á sömu braut, haldið áfram að breyta og skreyta og bara almennt að hafa gaman af því að vera til – og halda áfram að gera þetta í ykkar góða félagsskap ♥

Takk fyrir að lesa, að kommenta, að skoða og takk fyrir hlýhuginn og vináttuna sem ég finn frá ykkur. Ég kann svo að meta ykkur öll, ykkur allar, og er þakklát fyrir mitt hlutskipti.

Gleðilegt nýtt ár 2020 og takk fyrir öll þau gömlu!
ykkar
Soffia

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *