Vendipunktur…

…um daginn hélt ég fyrirlestur, eins og ég sagði ykkur frá, og þegar ég var að vinna í myndum fyrir fyrirlesturinn, þá fór ég yfir myndir alveg síðan 2011 þegar ég byrjaði með síðuna.

Það var auðvitað allt mikið smærra í sniðum þarna í byrjun, og ég notaði mikið meira af efni frá öðrum. En fljótlega var ég farin að gera meira sjálf og sérstaklega taka fleiri myndir sjálf. En þegar ég fór að skoða til baka, að líta um farin veg – þá held ég að ég hafi náð að finna svona minn vendipunkt. Þegar að ég fann hugrekkið til þess að fara að gera ýmisleg “meira” og hreinlega bara að þora að gera hlutina eins og ég vildi, en ekki endilega eins og “normið” er…

Þegar við fluttum hingað inn þá var stór fataskápur á ganginum. Við tókum hann í burtu og keyptum skápinn sem sést hér fyrir neðan. Pax-eikarskápur sem við keyptum í Ikea. Hann fór í fyrsta lagi alltaf í taugarnar á mér af því að hann var úr eik, en gólfin okkar eru hvíttuð eik. Jájá, ég er nett Monica, því er ekki neitað!

…en það var ekki bara liturinn á blessuðuðm skápinum, heldur fannst mér bara eins og ég gengi á vegg í hvert sinn sem við komum heim, og löbbuðum inn í forstofuna. Í stuttu máli, hann gaf mér enga gleði!

En, það er bara vaninn að vera með skáp á ganginum. Skápur fyrir yfirhafnirnar og skóna, þið vitið – þetta venjulega! Það tók mig því nokkra mánuði að sannfæra eiginmanninn minn, betri og almennt skynsamari helminginn, að það væri snjallræði að taka bara skápinn í burtu. Inn af forstofunni er þvottahúsið og ég vildi bara hagræða smávegis þar inni – og setja fatahengið okkar þangað inn. Snagar fyrir yfirhafnir krakkanna, einföld lausn. Plús að þá færi allt svona skóvesen þar inn og forstofan tæki á móti gestum, hrein og fín.

Þó nokkrum viðræðum síðar þá var skápurinn settur á sölu (2013), og hann fór að heiman. Blessaður vinur og takk fyrir komuna!

…tóm forstofa og full af möguleikum, í mínum augum. Auðn og tóm í augum eiginmannsins. En við tók að mála alla veggina, í hinum gamla og góða SkreytumHús-lit (litakort SkreytumHús hjá Slippfélaginu). Ég fór svo á stúfana og fann gamalt sófaborð sem við mjókkuðum og breyttum í bekk, og svo fann ég nokkrum mánuðum áður snagabretti í Góða Hirðinum…

…og eftir að hafa málað veggi, mjókkað borð og gert bekk, hengt upp snagabretti og sett kommóðu sem ég fékk gefins (og málaði) – þá var útkoman ca svona.

Þvílík gleði og ánægja! Ég upplifði í fyrsta sinn svona stolt bara við að opna hurðina. Því mér fannst forstofan falleg, mér fannst hún bjóða fólk velkomið, og það sem var líka “möst” – mér fannst hún sýna forsmekk af heimilinu. Hún sýndi það sem koma skyldi þegar inn væri komið…

…síðar fann ég þennan bekk í Góða líka, og hann fékk yfirhalningu (sjá hér)

…og þá vorum við komin hingað – svona nánast eins og hún er í dag…

…en mér finnst líka mikilvægt að sýna ykkur svona! Berrössuð og ekkert að gerast og þá er þetta nú svo sem ekki mikið spennandi…

…og smá púðum og teppum og skrauti síðar! Allt annað mál 🙂

Það er því hiklaust hægt að segja að litlu hlutirnir eru það sem gefa karakterinn, svona almennt…

…og þá erum við komin til dagsins í dag! Það sem mér þótti svo mikilvægt þegar ég var að skoða þessar myndir, var að sjá hvað mikið breyttist við það að fara útfyrir kassann og taka skápinn í burtu. Að hlusta á innri röddina sem sagði mér að láta bara slag standa og prufa…

…svo var líka vendipunktur þegar við settum upp hurðina fyrir þvottahúsið (sjá hér) en mér fannst hún gera svo mikinn karakter í rýmið. Þetta pínulitla rými…

…þannig að þegar ég fæ hrós fyrir að þora alltaf, og þar fram eftir götum. Þá er gott að muna að ég/við byrjuðum smátt. Bara að prufa sig áfram, spreyja smá hér – mála smá herbergi hér. Það er ekkert sem heitir að geta allt, og það er líka allt í góðu að taka sér tíma.

Svo er hægt að leika sér með hluti eins og mottur og púða og annað slíkt – og breyta þannig stíl, án þess að þurfa að gera miklar breytingar…

…breytingin sem við gerðum á ganginum á sínum tíma kostaði okkur ekkert nema tíma. Við seldum skápinn, að mig minnir á 20þús – bekkurinn kostaði 3þús, snagabrettið 1500kr, kommóðan gefins og svo áttum við málninguna (minnir mig). Meira segja fann ég upprunalegu mottuna í Góða og við bara skrúbbuðum hana (síðan þá hef ég keypt svona mottur í Rúmfó – ég var bara ekki viss um að þær þyldu umgang hundanna á sínum tíma).

Hér er upprunalegi pósturinn: Pjattbreyting – smella

Þannig að þegar upp er staðið þá var það salan á skápnum sem að borgaði fyrir allt sem keypt var. Ég ætla sem ekki að reyna að reikna út hversu mikið þetta breytti fyrir mig, en ég gæti ekki verið ánægðari með rýmið (nema jú kannski að skipta gólfefni – en það er efni í annan póst) 🙂

Þetta var vendipunktur hjá mér hérna heima, fékk mig til þess að horfa öðruvísi í kringum mig og til þess að finna leiðir til þess að gera einmitt það sem mig langaði við rýmin. Ekki að gera það sem “á að gera” heldur bara það sem ég vil gera.

…þannig að þessi póstur er til þess að hvetja þig að hugsa útfyrir kassann!

  • Að notagildi og fegurð geta alveg farið saman, en stundum má líka pjatta svolítið.
  • Í þessu litla rými þá eru snagarnir í raun í staðinn fyrir hliðarborð, það er á þá sem ég hengi skrautið og annað slíkt sem ég skipti út.
  • Snagabrettið er líka þægilegt fyrir gesti sem koma, það er bara hengt beint á og ekkert vesen.
  • Það eru litlu hlutirnir sem gera rými: mottur, púðar, smádótið og lýsingin.
  • DIY-verkin eru ótrúlega skemmtileg, þau er persónuleg og þau sýna þinn stíll. Það eru ekki aðrir sem eiga alveg eins, þú bjóst þetta til sjálf/ur.

Ég vona að þetta virki hvetjandi og að þú hafðir gaman að því að líta svona um öxl – eigðu góða vinnuviku framundan! ♥

ps. þætti vænt um að þið mynduð smella á like-hnappinn ef þið höfðuð gaman af póstinum og ekki væri nú verra að heyra aðeins frá ykkur!

4 comments for “Vendipunktur…

  1. Anonymous
    28.01.2019 at 10:17

    Get ekki verið meira sammála !
    Takk fyrir bloggið þitt kæra Soffía ..

  2. Sigrún Björg Víkingur
    28.01.2019 at 10:37

    Þú hefur alltaf gefið mér innblástur og það hefur ekkert breyst. Keyptum okkur sveitabæ sem á eftir að taka miklum breytingum en ætlum að hafa akkúrat þetta að leiðarljósi.. Nýta það sem er til og gera þetta að okkar.. tekur tíma en það er allt í lagi. Svo takk fyrir alla póstana þína ❤

  3. Birgitta Guðjonsd
    28.01.2019 at 11:01

    Bara eitt orð”Snillingur”….takk fyrir að sýna mér og öllum hinum…eigðu góðan dag…

  4. Margrét Helga
    28.01.2019 at 19:49

    Fékk smá sjokk þegar ég byrjaði að lesa…held nefnilega að ég hafi fundið bloggið þitt 2013 einhverntímann og ég hugsaði bara að það gæti ekki verið! Max 3 til 4 ár…en nei…ég var enn í gömlu vinnunni minni 2013, hætti 2014 þannig að þetta hlýtur að vera rétt 😲
    En já…maður verður að hugsa heimilisbreytingar út frá því sem lætur manni líða vel heima hjá sér. Það er aðalatriðið, ekki hvað öðrum finnst um hvernig heimili annarra er 😊 Haltu áfram á þinni braut mín kæra, þú ert yndi ❤

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *