Allir geta út­búið fal­legt fermingar­boð…

…við mæðgur fórum í smá viðtal og myndatöku fyrir Fréttablaðið, áður en fermingum var frestað, og þið getið skoðað það með því að smella hér!

Blómaskreytirinn Soffía Dögg Garðarsdóttir hefur verið ótal mörgum innblástur fyrir flottar fermingarveislur. Nú fermir hún sjálf í fyrsta sinn.

fb-ernir200306-soffía-15.jpg

Við höfum verið sérlega afslappaðar í þessu öllu, mæðgurnar. Ég tók snemma þann pól í hæðina að nýta sem mest af því sem við eigum hér heima, og sérstaklega að nota hluti sem fermingarstúlkan sjálf á í skreytingarnar, til dæmis barnaskóna og rósina hjá kertinu sem var á skírnarpakka frá ömmu hennar og afa,“ segir Soffía Dögg Garðarsdóttir sem fer nú í gegnum fermingarundirbúning með dóttur sinni, Valdísi Önnu Valdimarsdóttur, sem fermist 29. mars í Bessastaðakirkju en fjölskyldan er búsett á Álftanesi.

Soffía er blómaskreytir og hefur í gegnum tíðina skreytt fyrir margar veislur og sýnt ótalmargt gagnlegt og skemmtilegt fyrir fermingar á síðunni sinni SkreytumHús.is

Freistandi og litríkir kleinuhringir og franskar makkarónur á þriggja hæða diski. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

„Við Valdís Anna skoðuðum myndir til að ákveða í hvaða átt við vildum fara með skreytingar fyrir veisluna en svo sagði hún bara að hún væri komin með skreytara í málið og þyrfti ekki að spá meira í það,“ segir Soffía og hlær dátt en skreytarinn sem Valdís Anna átti við var auðvitað mamma hennar.

„Daman vildi gjarnan blöðrur og við fengum þær frá ConfettiSisters.is sem og glerkrukkurnar. Hjá Puha Iceland fengum við svo fréttaritið frábæra með fæðingardegi fermingarbarnsins. Það var mjög skemmtilegt að nota það í veislunni sjálfri sem skraut en líka sem gjöf til gestanna,“ segir Soffía.

Ritningarversið sem Valdís Anna valdi sér fyrir fermingardaginn er skrautritað í gestabókina. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Hún fékk gyllta kökutoppinn frá Puha Iceland á Facebook.

„Þar eru snillingar í að útfæra með manni sniðugar hugmyndir. Ég sagði þeim bara hvað mér datt í hug og þau gerðu sína tillögur sem voru að sjálfsögðu samþykktar í hvelli. Mér finnst kökutoppurinn gera kökuna virkilega hátíðlega og gaman að hafa skrautið persónulegt,“ segir Soffía.

Gestabókin og kertið kemur frá litlu fyrirtæki á Akureyri.

Kertaskreytingin geymir fallega rós sem Valdís Anna fékk á skírnarpakka frá ömmu sinni og afa. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

„Þar er hún Vaiva í Stúdíó Vast, alveg dásamlega flottur skrautskrifari. Mér finnst allt sem hún gerir svo stílhreint og fagurt og því kom hún fyrst upp í hugann með fermingarkertið. Við völdum líka gestabók sem á stendur Gestabók en ekki Ferming því mér finnst sniðugt að daman geti notað gestabókina í stúdentsveislunni líka, ef hún vill. Þá þótti mér ritningarversið sem Valdís Anna valdi sér svo fallegt að ég vildi endilega hafa það með líka,“ segir Soffía.

Hún ætlar að sleppa því að baka sjálf fyrir veisluna.

Sykurpúðar í fallegum glerkrukkum gefa veisluborðinu fagran svip. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

„Mér finnst ekkert svo skemmtilegt að baka og fæ mér mun færara fólk í málið. Hún Auður í 17 sortum er snillingur þegar kemur að kökum og ég valdi einmitt kökutoppinn með hennar listaverk í huga. Veislan miðast við að hafa það sem fermingarbarninu finnst best og hreinlega eins afslappað og hægt er að hafa þetta,“ segir Soffía.

Hún lumar á mörgum góðum ráðum þegar kemur að því að setja upp fallega veislu.

Þetta frábærlega sniðuga fréttabréf lét Soffía útbúa fyrir fermingarveisluna. Þar má finna ýmsan fróðleik um fæðingardag fermingarstúlkunnar. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

„Við erum svo heppin að leigja HÁS sköpunarsetur í Síðumúla fyrir veisluna og húsakynnin þar eru svo falleg að það þarf ekki mikið að gera. Ég ætla að nota fersk blóm, sem ég mæli með fyrir alla, og láta svo matinn og veitingarnar skreyta líka. Það má ekki vanmeta hversu mikið skraut er í fallega uppsettum veitingum. Það geta svo allir útbúið fallegt veisluborð en ég mæli alltaf með að setja einhvers konar renning sem dregur augað að miðju borðsins og vera með falleg blóm og kerti, og helst eitthvað sem kemur frá fermingarbarninu með. Það er líka mikilvægt að reyna að skapa smá hæðarmun á borðinu til að ná fram smá dramatík og þá eru blöðrur og blöðrubogar líka sniðugir.

Soffía segir alltaf gaman að nota hluti sem tilheyra fermingarbarninu til skreytinga. Hér hefur hún sett ungbarnaskó af Valdísi Önnu í glerkassa úr Rúmfatalagernum sem mun líka geyma fermingarkort sem berast á fermingardaginn. Stafirnir eru frá Puha Icela

En númer eitt, tvö og þrjú er að muna að njóta þess að vera með fermingarbarninu á þessum merkilega degi og öllum þeim sem koma til að gleðjast með. Við hlökkum í það minnsta mikið til.“

Fermingarborðið er sérlega glæsilegt hjá mæðgunum Soffíu Dögg og Valdísi Önnu og sannarlega innblástur fyrir þá sem eru í fermingarundirbúningi þessa dagana. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Texti: Þórdís Lilja Gunnarsdóttir
Myndir: FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
Til að skoða greinina, smella hér!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *