Frá hugmynd að veruleika…

…ég hef alltaf haft mikið dálæti á svona fallegri skrift, flottri ritlist – ef svo má kalla. Ég hef alltaf verið með málverk heima hjá mér, bý svo vel að hann pabbi minn mála listaverk, en auk þess finnst mér gaman að hafa svona skrift uppi á vegg. En ég er hins vegar ekki mjög hrifin af svona þessu dæmigerða enska sem er hægt að fá – þið vitið bara Home sweet home – Love og allt það. Alls ekki að setja út á svoleiðis, það er bara ekki fyrir mig!

En ég er hins vegar með alls konar gamalt á heilanum, er með svo mikið af gömlum skjölum og ljóðum frá föðurafa mínum, og sitthvað frá móðurfjölskyldunni, og mér finnst þetta allt saman vera svo merkilegar og fallegar heimildir. Ég ákvað því að láta gamlan draum rætast og gera með smá veggjalist, úr því sem ég var með hérna heima.

Ljóð eftir hann afa, vélritað af honum og undirskriftin hans undir.
Símskeyti til ömmu og afa í tilefni af brúðkaupi þeirra.
Texti sem föðurafi skrifaði um komu móðurafa míns til landsins.
Forsíðu af almanaki frá 1916.

…ég var spurð hvers vegna ég rammaði ekki bara inn skjölin, en ástæðan er einfaldlega sú að ég var að stækka þetta alveg margfalt. Alveg upp í ca 50×70 stærri myndirnar. Auðvitað er líka hægt að skella beint í ramma, ef upprunalega stærðin passar ykkur.

Ég fór með þetta í Prentun.is í Hafnarfirði og fékk þá til þess að meta fyrir mig hvað væri hægt að stækka hvert skjal mikið. Ef upprunalega skjalið er lítið, þá er kannski ekki hægt að stækka þetta upp úr öllu valdi. En það er þá gott að fá ráðleggingar reyndari manna. Eins vildi ég láta aldurinn halda sér á skjölunum. Vildi ekki láta gulnað blaðið líta út eins og það væri hvítt og nýtt. Nóbbs, bara halda þessu í gamla tímanum…

…ég borgaði rétt rúmlega 13þús fyrir allar fjórar myndirnar, þær stærri voru eins og áður sagði um 50×70 (fór eftir stærð þeirra áður til að halda hlutföllum) en þær minni voru ca 30×40. Tvær stærri og tvær minni…

…það er vert að hafa í huga þar sem hlutföllin á upprunalega skjalinu stjórna hlutföllum á plagatinu að þá passaði ekki karton-ið sem að fylgdi fyrir 50×70 myndirnar. En það kom kannski ekki að sök, þar sem ég ákvað fljótt að ég vildi mikið frekar hafa svart karton með. Ég fór því með myndirnar í Innrömmun Sigurjóns í Fákafeni og fékk þau til þess að skera karton fyrir mig. Það gerði myndirnar mikið fallegri, faglegri og gaf þeim meira vægi. Þið sjáið hér að neðan muninn að hafa hvítt í kring eða svarta kartonið. Það kostaði næstum jafn mikið að útbúa kartonið í kring – en mér þykir það vera þess virði því að þetta gjörbreytti útlitinu…

…mér finnst gamla símskeytið koma svo fallega út, skjaldarmerkið nýtur sín og skriftin er hreint dásamleg. Blessaður starfsmaður Landssímans hefur reyndar gert smá feil og setur inn miðnafn hans afa í stað þess að setja Jörgen, en það eykur bara á sjarmann…

…almanakið keypti ég á örfáar krónur í Nytjamarkaði og mér þykir það líka ferlega flott – gaman að blaðsíðan var svo þunn, að það sést aðeins í skriftina aftan á blaðinu í gegnum prentunina…

…fyrir myndirnar er ég svo bara með ramma úr Ikea, þetta er staðlaðar rammastærðir hjá þeim, og því bara hægt að velja það útlit sem maður kýs helst…

..en, og þetta svolítið stórt EN, rammarnir í Ikea eru ekki lengur með gleri heldur svona plasti. Það er filma sitt hvoru megin sem þarf að taka í burtu en engu síður er svakalegur glampi sem kemur – sérstaklega þegar að kartonið er svart…

…glampinn er að trufla mig ansi mikið, en ég hafði samband við innrammara og mér var tjáð að skera glampafrítt gler í ramma sem er 61×70 (stóru myndirnar) myndi kosta 13.200kr stk. Það þykir mér helst til mikið. Íspan er átti ekki til glerið núna, en ætlaði að láta mig vita í lok næstu viku hvað svona gler kostar hjá þeim, en ég veit að þetta er frekar dýrt.

Í beinu framhaldi af þessari risa rammaumræðu, þá eru til rammar í Dimm.is sem eru með glampafríu plexigler. Þeir eru dýrari en Ikea rammarnir 9.900kr fyrir stóru rammana, en mikið ódýrari en að láta skera fyrir sig gler – þannig að ég bendi á það sem kost sem vert er að skoða: smella hér

…nú þegar ég er búin að þylja þetta allt upp – þá er best að sýna þetta betur. En ég verð að viðurkenna að ég er ofsalega ánægð með myndirnar, og mér finnst þetta koma svo fallega út

…mér finnst svona textar alltaf skemmtilegir, og þeir eru svo fallegir með í uppstillingar – þurfa ekki jafn mikla athygli og mikið af listaverkum, en eru samt svo áhugaverðir þegar farið er að skoða nánar…

…persónulegra verður það ekki en að finna eitthvað sem tengist þinni fjölskyldusögu, eitthvað sem að er hluti af arfleið þinni…

…svo má finna eins og almanakið, sem mér fannst bara fallegt!

…snilldin við þetta er að þetta opnar svo marga möguleika. Það er svo margt sem hægt er að nota. Þegar ég var að skoða gömlu skjölin fann ég meira segja eldgamlan víxil, allur skrautskrifaður og fallegur 🙂

Hugmyndir fyrir ykkur að svona myndum:
Símskeytin, gefur augaleið
Gamlar myndir
Gömul kort/sendibréf
Teikningar barna
Landakort
Eftirlætisbók – forsíðan eða eitthvað uppáhalds í bókinni
Eftirlætisljóð
Textar við lag úr brúðkaupi/skírn/eftirlætislag
– möguleikarnir eru endalausir!

…mér fannst líka ótrúlega skemmtilegt að segja frá þessu á Insta/Snappinu, og ég fór strax að fá sendar myndir frá ykkur þar sem þið voruð að sýna mér hitt og þetta, sem skiptir ykkur máli en þið vissuð bara ekki hvernig væri skemmtilegt að setja fram…

…ef þið viljið spara ykkur kostnaðinn við kartonið þá er vert að hafa í huga innra málið á kartoninu sem fylgir rammanum (í Ikea) og fá þá í prentuninni til þess að gæta þess að myndin passi þar innan í. Eins er sniðugt að kaupa fyrst bara rammana, þannig að þið séuð með öll málin á hreinu áður en lagt er af stað…

…vona að þetta vekji hjá ykkur skemmtilegar hugmyndir – og að við lítum frekar inn á við til þess að búa til skemmtilegar myndir á veggina, fremur en panta t.d. bara plagöt af AliExpress.
Endurnota, endurnýta og umfram allt endurnjóta! 🙂

Vona að helgin verði ykkur einstaklega ljúf og notaleg!

ps. þætti vænt um að þið mynduð smella á like-hnappinn ef þið höfðuð gaman af póstinum og ekki væri nú verra að heyra aðeins frá ykkur – eins má sko deila þessu í allar áttir, það væri bara yndislegt!

1 comment for “Frá hugmynd að veruleika…

  1. Anonymous
    21.02.2022 at 09:45

    Vá ekkert smá fott, og góð hugmynd

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *