Textaverkin hans Bubba…

…ég fór í ótrúlega skemmtilegt verkefni núna á dögunum með henni Hrafnhildi vinkonu minni. En hún var að fara að setja upp verslunarrými í Kringlunni til þess að afhenda textaverkin sem að maðurinn hennar, Bubbi Morthens, er að gefa út núna fyrir jólin. Það var ekkert sérstaklega planið að gera póst úr þessu og deila þessu með ykkur, en útkoman var svo skemmtileg og við vorum svo ánægðar með hversu vel þetta gekk að mér fannst bara möst að setja inn nokkrar myndir af ferlinu…

…rýmið stóð autt og verslunin er auðvitað bara sett upp í skamman tíma, þannig að upphaflega planið okkar var að reyna að láta þetta kosta lítið og nýta það sem til var inni í rýminu. En það stendur til að gjörbreyta plássinu og það mátti því nota allan efnivið sem var þarna inni. Því var horft í hvern hlut sem var til staðar, og við fundum leið til þess að gera einmitt það.
En þrátt fyrir að við værum að vera umhverfisvænar í nýtingu efnis þá þurfti þetta líka að vera töff og við vildum skapa umhverfi þar sem þessi fallegu verk næðu að njóta sín til fulls…

…við vissum að búðin væri of löng eins og hún var í byrjun. Við þurftum að hafa gott pláss fyrir myndirnar “á bakvið” og að það væri auðvelt aðgengi að þeim fyrir þá sem eru að afhenda þær. Það þurfti því að stúka búðina í tvennt og mér datt strax í hug stóra myndin sem var utan á Borgarleikhúsinu sem auglýsing fyrir sýninguna 9Líf – sem allir ættu reyndar að vera búnir að sjá, algjörlega geggjuð sýning – við erum búin að fara tvisvar!

Borgarleikhúsið átti sem sé þessa mynd og við gátum fengið hana til þess að búa til vegg í miðri búðinni, og hvað er meira viðeigandi til þess að búa til vegg í “Bubbabúð” en einmitt mynd af Bubba?

…á veggnum var skápur fastur og fyrir ofan hann stór trérammi.
Við tókum skápinn og snerum honum þannig að bakið sneri fram…

…síðan málaði ég einfaldlega framhliðina á skápnum(sem áður stóð upp við vegg) og þar með var komið fullkomið afgreiðsluborð, og tréramminn fékk nýtt hlutverk sem veggur á bakvið afgreiðsluborðið. Eða sko tréramminn og svo plötur sem við tókum af veggjunum inni í mátunarklefunum. Algjörlega gjörnýtt allt sem við fundum…

…eins voru afgangar af sömu plötum nýttir til þess að búa til “basis” undir myndina, svona til þess að gera hana massífari og enn flottari…

…það er svo magnað hvað málning getur gert, og það að mála bæði framhliðina á afgreiðsluborðinu og þennan basis undir myndinni það breytti öllu. Gerði þetta svo mikið flottara og bara töff. Þetta mátti líka alveg gróft og svoldið rustic…

…eins voru tveir svona svartir rammar fastir á veggjunum fyrir, og við það eitt að mála bakhliðina á þeim svarta þá litu þeir út fyrir að eiga að vera þarna. Seinni bættist síðan við auglýsingaplagat í þá…

…mér finnst alltaf þægilegt að byrja á að raða myndum á gólfið þegar ég er að sjá þetta fyrir mér, bæði til þess að ákveða hvernig er best að raða, og eins og í þessu tilfelli til þess að sjá hvernig litirnir raðast saman…

…við keyptum bara tvö húsgögn þarna inn, þessar hillur fann ég í Góða hirðinum og okkur fannst þær kjörnar þarna undir, til þess að gefa smá fyllingu…

…og bekkinn fallega keypti ég í Dorma…

…en það var ótrúlega gaman að sjá þetta verða til, án þess að þyrfti að kaupa alls konar efni til þess eins að rífa niður aftur eftir nokkrar vikur…

…og ég verð að mæla með að þið gerið ykkur ferð til þess að skoða verkin, því að þau eru svo ótrúlega falleg og enn fallegri í “eigin persónu”…

…enda eru svo margir af þessu textum svo djúpt grafnir í þjóðarsálina að þeir eru orðnir eitt með henni…

…og þessir litir áttu meira að segja svo vel við stóru Bubba-myndina sem var alveg óvæntur bónus í þessu öllu…

…gítarar eru viðeigandi í þessari “verslun”…

…og að sjálfsögðu þurfti að setja upp búðarglugga, sem ég ákvað að hafa frekar einfaldan til þess að láta myndirnar innandyra tala….

…en ég er samt svo ótrúlega ánægð með hvernig þetta kom allt út og hversu góður samhljómurinn í þessu öllu varð þegar upp var staðið…

…og smá svona einfalt jólatré með líka, því það er nú einu sinni desember…

…fyrir ykkur sem eruð áhugasöm þá fást einhver verk ennþá inni á Bubbi.is – smella til að skoða!

…og þær eru svo sannarlega vel þess virði að eignast!

…búðin er staðsett á neðri hæð Kringlunnar, á milli Under Armour og Skecher, þannig að það er auðvelt að finna hana. Þar sem það er verið að afhenda verkin þarna, þá er opnunartíminn um helgar:

Fyrstu helgina í desember

Laugardaginn 3. desember 12.00 – 18.00

Sunnudaginn 4. desember 12.00 – 18.00

Aðra helgina í desember

Föstudaginn 9. desember kl.12.00 – 18.00

Laugardaginn 10. desember kl.12.00 – 18.00

Sunnudaginn 11. desember kl.12.00 – 18.00

Þið getið smellt hér til þess að kynna ykkur opnunartíma betur!

…þetta verkefni var alveg hreint þvílíkt skemmtilegt…

…við Hrafnhildur vorum líka svo heppnar að Sigginn okkar kom og reddaði málunum, en það er auðvitað möst að eiga einn Sigga í öll verkefni, heimisins besti handyman…

…vona að þið eigið yndislega helgi framundan, og reynum að njóta aðventunnar eins vel og auðið er ♥

ps. það þarf enginn að vera hræddur við að smellá á Like-arann,
og svo er alltaf frjálst að deila póstunum ef ykkur langar!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *