12 ára…

…í dag eru tólf ár síðan ég tók við mikilvægasta hlutverki lífs míns.   Ég varð mamma.  Þetta tók sinn tíma, það tók tíma að verða ófrískur, svo tók það tíma fyrir elsku dömuna mína að koma í heiminn.  Hún átti að fæðast 1.febrúar en beið að sjálfsögðu þar til hún var tilbúin, hún gerir allt á sínum hraða – og gerir það vel.
Hún var ekki búin að skorða sig, þannig að ég var með ströng fyrirmæli um að leggjast niður ef ég myndi missa vatnið.  Þetta var föstudagur, og ég hafði ekki sofið dúr alla nóttina.  En við fórum með Raffa til dýralæknis kl.9 og ég sagði eiginmanninum að við ættum að taka með okkur töskuna þar sem við áttum tíma í mónitor uppi á Lansa kl 10 um morguninn.  Bóndanum þótti það óþarft, ég var ekki með neina verki, ekkert vesen – skjótumst bara uppeftir.  Ég settist í móntor í LazyBoy og eftir smá stund heyrðist hár smellur, og vatnið fór.  Ég held að ég hafi eyðilagt stólinn.
Beint inn á stofu og um leið var orðið mjög stutt á milli hríða.  Eiginmaðurinn sendur heim eftir töskunni, og með Raffann í pössun – þetta var að gerast.
Svo kom hann aftur, og þetta tók tíma – endalausan tíma.  Ég hékk í glaðloftinu og bóndinn sat öðru megin við rúmið og ljósa hinu megin.  Þau ræddu um hundaræktarfélagið og ég plottaði hvernig ég ætlaði að kála þeim þegar ég væri ekki að deyja úr hríðum sem voru næstum stöðugar – í 13 tíma!
Ekkert gekk og þrátt fyrir fulla útvíkkun kom daman ekkert, hjartsláttur var alltaf að detta niður og í hvert sinn kom hlaupandi teymi inn í herbergið, og í hvert sinn hélt ég að ég væri að deyja úr stressi.  Svo var reynt með sogklukku og að lokum var það bráðakeisari!
Hún var komin! Þessi dásamlega, yndislega vera sem ég hafði beðið eftir – í held ég sex ár.  Eða kannski bara allt mitt líf.
Þar sem þetta var keisari, þá sá ég hana ekki strax – en hjúkkan sagði strax: “ja hérna, pabbinn sver sko þessa ekki af sér”.  Setning sem ég átti eftir að heyra oft, og mér þykir alltaf jafn vænt um. Þau eru alveg eins.
Þegar ég sat við tölvuna og skoðaði myndir af elsku stelpunni minni, og svo auðvitað af syninum þegar hann bættist við, þá gat ég ekki annað en grátið.  Auðvitað gleðitárum, en þetta hafa verið svo dásamlegir tímar, svo yndislegar stundir og svo ótrúleg hamingja og forréttindi.
Ég get ekki annað verið endalaust þakklát fyrir þessa blessun og endalausu ást.
…þessi stóru augu…
…pabbamús…
…þessi augnhár…
…með uppáhalds bangsann, sem er enn við hendina…
…þegar við fluttum í húsið okkar, svona var stofan…
…Stormurinn bætist við 🙂
…íhugul…
…kát…

…uppáhaldsmyndin mín af henni með pabba…
…í útlöndum að leika með pabba…
…og svo kom elsku litli maðurinn……og þau tvö hafa nánast gengið hönd í hönd síðan…
…og fyrir það er ég endalaust þakklát…
…því að þau sýna hvort öðru vináttu og virðingu, og auðvitað ást – og það er ómetanlegra en orð fá lýst…
…stórkostlega stelpuskott…
…enn augnhárin löngu…
…og við tvær…
…ég hef alltaf verið sannfærð um að hvert tímabil í lífi barnanna minni sé það skemmilegasta sem hægt er að upplifa.  En svo kemur bara enn skemmtilegri tími.  Það sama er að gerast núna, þar sem litla stúlkan mín er að verða stór…
…og með hækkandi aldri kemur aukinn þroski og maður fyllist stolti að sjá persónuna sem hún er!
…endalaus ást, þakklæti og stolt!
Árin eru orðin 12 ♥

Þú gætir einnig haft áhuga á:

4 comments for “12 ára…

 1. Margrét Helga
  11.02.2018 at 09:05

  Innilega til hamingju með flottu, duglegu og gullfallegu-alla-leið-í-gegn- afmælisdömuna þína 🙂

 2. Rannveig Ása
  11.02.2018 at 11:35

  Ég táraðist nú bara við lesturinn. Til hamingju með stelpuna og með hvert annað.

 3. Anonymous
  11.02.2018 at 14:31

  ❤️❤️ Risa hamingjuóskir og knús (“,)
  Gullklumpur þessi stelpa ❤️

 4. Birgitta Guðjons
  12.02.2018 at 19:27

  Þessi flotta dama og myndirnar eru fjársjóður….afmæliskveðjur….

Leave a Reply

Your email address will not be published.