Bestu pennavinirnir…

…þegar líða fer að jólum, og við erum nú bara á endasprettinum núna, þá fer alltaf af stað mikil umræða um sveinana 13 sem sækja okkur heim og gefa gott í skóinn.  Ekki mega þeir mismuna, ekki mega þeir gleyma, þeir eru töfrar og láta drauma rætast. En það sem mig langaði að hafa orð á er saga frá minni bernsku.

Ég var sko helsti átrúandi jólasveinanna langt fram eftir aldri, og trúi auðvitað enn, þó að trúin mótist alltaf af því á hvaða aldri maður er.
Ég get varla rifjað upp einn einasta hlut sem ég fékk í skóinn.  En, það sem ég á auðvelt með að draga fram er þessi tilfinning.  Þessi undursamlega spenna við að kíkja á bakvið gardínuna og sjá hvað leyndist ofan í skó.  Það sem gerir þó þennan tíma ævintýralegastan í mínum huga, er sú minning að þessir félagar skrifuðu mér allir bréf.  Þau voru frumleg, fyndin, falleg og allt þar á milli.  Ég á þau enn, en því miður náði ég ekki að finna þau til fyrir þennan póst.
Það sem mér datt því í hug er að stinga þessu að ykkur, það er ekki alltaf það sem kemur í skóinn sem skiptir öllu – heldur getur það verið “tilfinningin” sem að gjöfin og auðvitað mest af öllu, bréfið skilur eftir sig. Það eru oft bréfin sem eru skemmtilegust, sem gera tenginguna við kalla meira áþreifanlegri og spennandi.
Ég hef birt þetta áður, en það má alveg koma aftur:

Ég trúi á jólasveinana, þeir eru svoldið svona bara það góða í öllum líka.  Þegar að ég var lítil stelpa þá skrifaðist ég einmitt á við þessa karla og þið bara vitið ekki hvað þessar minningar eru dýrmætar.  Þeir sendu mér bréf sem voru klippt út og litu út eins og stígvél eða jólahúfa.
 
Ein af mesta spennandi stundunum sem ég upplifði var þegar að ég óskaði mér bókar frá Kertasníki á aðfangadag.  Hún kom ekki en ég fékk að sjálfsögðu eitthvað annað spennó í staðinn.  Síðan sat ég og horfði á barnasjónvarpið og allt í einu þá sé ég stórann skugga standa við steinda gluggann við úthurðina, ég fraus alveg, þorði ekki að hreyfa mig, sá útlínur af miklu skeggi,  Síðan flaug póstkort inn um lúguna og skugginn hvarf.
 Ég læddist að lúgunni og kíkti út en sá engann, síðan tók ég upp kortið og las.  Sveinki baðst afsökunnar á að hafa klikkað á þessu með bókina, en hún væri fyrir utan í poka sem hengi í trénu sem hundurinn pissaði alltaf í.  Viti menn, þarna var bókin mín: Keli, köttur í ævintýrum 🙂
Bókin sem ég fékk stendur enn í hillu hérna í skrifstofunni, minningin er enn ljóslifandi og dásamleg.
Hjálpum börnunum okkar að upplifa þessa spennu, þetta ævintýri og svona skemmtun.  Þetta eru jólin og það þarf að gera svo lítið extra til þess að þetta verði enn meira spennó.  Ég er líka óendanlega þakklát öllum þeim sem hjálpuðu sveinunum mínum að gera þennan tíma að skemmtilegasta tíma ársins.
Ef sveinarnir ykkar hafa ekki verið bréfavinir hingað til – þá hvet ég ykkur til þess að fá krakkana til þess að skrifa þeim bréf.  Það er hreint stórkostlega skemmtilegt fyrir börnin, hvetur þau til að lesa, gerir þau svo spennt og ævintýrið um sveinana verður enn merkilegra fyrir vikið!

Þú gætir einnig haft áhuga á:

3 comments for “Bestu pennavinirnir…

  1. Margrét Helga
    22.12.2017 at 08:06

    Yndisleg sagan um sveinkann og bókina 🙂 Og þetta hafa sko verið skemmtilegir pennavinir sem þú áttir og lagt mikið í bréfin sín 🙂

  2. Margrét Milla
    22.12.2017 at 08:56

    Yndislegur og sannur póstur. Ég einmitt trúi enn á jólasveinana og þeir eru pennavinir dóttur minnar.

  3. Guðrún
    22.12.2017 at 10:07

    Dásamlegt. Það er þetta og annað álíka sem gildir mest og gleymist síðast <3

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *