París II…

…og nú erum við komin í Louvre-safnið.
Aftur sáum við að þetta var alveg kjörtími til þess að vera í París, því að það var nánast engin röð – biðum kannski í 3 mínútur til þess að komast inn……ég varð líka mjög hrifin af pýramídanum, þessi módern bygging kemur ótrúlega vel út þarna við safnið.  Safnið sjálft opnaði 1793, þannig að saga þess er gífurlega löng.  Það er alveg ógrynni af verkum þarna inni, yfir 35.000 verk og þó maður myndi gefa sér viku í að skoða það – þá myndi það væntanlega ekki duga til…
…en þó safnið hafi opnað 1793, þá er fyrsta byggingin – höllin – frá ca 1200.  Hugsið ykkur bara!
**LOUVRE  Mikilvægasta og ein fegursta bygging Parísar vegna innihaldsins og byggingarstíla.  Fyrsta mannvirkið þar var víggirtur kastali (Philippe Auguste 1180-1223), sem Karl 5. stækkaði og skreytti.  Alla 15. öld vanræktu kóngarnir Louvre og notuðu húsið sem vopnabúr og fangelsi.  Árið 1546 ákvað Frans I (1515-47) að byggja nýja höll þar og réði Pierre Loscot, bezta arkitektinn á dögum endurreisnarstílsins, til að byggja hana.  Síðan lagði hver kóngurinn af öðrum hönd á plóginn unz Napóleon Bonaparte og Napóleon III létu gera við eldri hluta Louvre og bættu við þeim hluta, sem tengist Tuilerieshöllinni. Louvre-höllin er 198.000 m² með inngörðum, þrisvar sinnum stærri en Vatikanið og Péturskirkjan.  Norðurhluti Louvre er notaður fyrir fjármálaráðuneytið.  Í vesturendanum, Pavillon de Marsan, er skrautminjasafn.  Allar aðrar fyrrum vistarverur í Louvre eru safn með u.þ.b. 300.000 verkum, sem tæki 208 sólarhringa að skoða miðað við 1 mínútu fyrir hvert verk (tæp 2 ár með 8 stunda vinnudegi).
…og það er því ekki bara listaverkin sem eru til sýnis þarna sem eru að heilla – heldur bara byggingin sjálf sem er alveg stórbrotin.  Það er nauðsynlegt að gefa sér tíma og horfa t.d upp í loftin…
…og svo ofan á það bætast við öll þessi listaverk…
…og eins og þið sjáið, þá er t.d. þessi gangur þéttsetinn myndum, og út frá honum eru síðan salir fullir af verkum…
…og hér er hún sem allir gefa sér tíma í að heilsa upp á – Móna Lísa.  Hún er eftir Da Vinci og var máluð 1503.  Er auðvitað eitt frægasta málverk í heimi, og er alveg ómetanleg.  Frakkar eru t.d hættir að reyna að tryggja hana, því það er svo dýrt, en eyða þess í stað öllum þeim fjármunum í að vernda málverkið.  En það hafa verið gerðar þónokkrar tilraunir til þess að skemma/stela/eyðileggja hana í gegnum árin.

Það sem kom mest á óvart var hversu smá hún er í raun og veru, og sérstaklega þar sem verkið sem stendur gengt henni í safninu er svo risastórt, að það er á við ágæta blokkaríbúð hér á landi…
…munið að horfa upp á loftin…
…þarna byrjar maður ósjálfrátt að humma tónlistina úr Vesalingunum.
Franska byltingin sem var máluð 1830 – eftir Delacroix.  Þar sem konan er persónugervingur frelsisins og leiðir fólkið sitt áfram…
…höggmyndirnar…
…falleg nytjalist…
…þetta mósaík gólf kemur úr kirkju St. Christopher (Líbanon).  Þetta er frá árinu 575 og fagnar sköpunarverki Guðs…
…og það er magnað að skoða þetta svona nánar, þegar maður hugsar um hvernig hver einasta flís hefur verið handgerð og hversu mikill tími hefur farið í þetta.  Stórbrotið…
…að menningartúr um Louvre loknum, komum við við í bakarí sem er þarna í kjallaranum og keyptum okkur eitthvað kruðerí.  Síðan var bara tölt út í garðinn og fundinn kózý staður og við fengum okkur smá næringu.  Verst að það sést ekki á þessari mynd, en á milli okkar í fjarska sást einmitt Eiffel-turninn…
…og það er um að gera að setjast niður og njóta, því útsýnið – það er bara alls staðar fallegt.  Þarna á bakvið sést í Louvre og pýramídann…
…þaðan gengum við í gegnum Tuileries-garðinn, og eins og þið sjáið þá liggur hann að Place de la Concorde. En það er ótrúlega fallegt torg, sem á kannski miður fallega sögu.  En þar var fallexi Frakka á sínum tíma.  Svo þegar lengra er litið sérst í Sigurbogann.

*PLACE de la CONCORDE er eitt stærsta og fegursta torg heims á öxlinum Louvre til Etoile. Á árunum 1793-95 sneið fallöxin 2800 höfuð frá búkum á torginu.  Núverandi útlit torgsins er frá 1854.  Einsteinungurinn er frá Luxor í Egyptalandi, tæplega 23 m hár, úr anddyri Þebuhofsins, sem Ramses II lét reisa á 13. öld f.Kr. nærri núverandi Luxorborg.  Pasha Mohammed Ali gaf Lois-Philippe hana árið 1831.  Brúin Pont de la Concorde var byggð 1787-91 og endurbyggð 1935-39. Concorde þýðir andardráttur.
JARDIN des TUILERIES   Þar slöppuðu frönsku konungarnir af áður fyrr.  Garðurinn var gerður að mestu leyti árið 1664.  Margar styttur, tvær tjarnir.  Áður var tígulsteinagerð (fyrir 1564) á þessum stað.  Í Tuilerieshöll bjuggu konungarnir til 1871.
…önnur af tveimur tjörnum sem í garðinum er.  Það eru stólar allt í kring og fólk situr og nýtur útsýnis…
…en þrátt fyrir að vel væri liðið á september, þá er allt enn í blóma…
…Pont Alexandre III, stórbrotin brú sem var byggð milli 1896-1900…
…á einum og sama deginum gengum við frá Notre Dame að Louvre, örkuðum um Louvre safnið í nokkra tíma, gengum í gegnum Tuileries garðinn, og þaðan aftur heim á hótel.  Ágætis labbitúr það 😉
Enn er meira til af myndum! en þið eruð kannski alveg komin með nóg? 🙂

Texti með staðreyndum um París sem er skáletraður, er fenginn héðan!
P.s. Annars langar mig líka til þess að biðja þig, sem þetta lest, að smella á like-takkann ef þú hafðir gaman að póstinum. Að baki flestum póstum liggur margra klukkustunda vinna og mér þykir alveg afskaplega vænt um þessi litlu sætu like þegar mér berast þau. Þetta er bara svona eins og að segja góðan daginn með brosi á kaffistofunni – það þarf ekkert, en það kunna allir að meta það ♥

Þú gætir einnig haft áhuga á:

Leave a Reply

Your email address will not be published.