20.000…

…á laugardaginn ná síðan mín á Facebook þeim merka áfanga að vera með yfir 20.000 fylgjendur.  Ég get alveg lofað ykkur því að þetta er ekki hlutur sem ég tek sjálfsagðan, og að baki þessu öllu liggur alveg ómæld vinna og fleiri klukkustundir en ég myndi þora að reyna að telja.  Ég verð líka að viðurkenna að ég varð alveg ótrúlega stolt, ánægð og þakklát ❤️Það er nefnilega líka þannig, að þann 13.september næstkomandi eru komin 7 ár síðan ég byrjaði að skrifa þetta blogg.  7ár síðan ég var í fæðingarorlofi með litla kallinn minn, og ákvað að segja frá því hvað ég væri að stússa hérna heima fyrir í fæðingarorlofinu, svo að stelpurnar í vinnunni gætu fylgst með.

Ég held að bloggið hafi í sjálfu sér ekki mikið breyst í grundvallaratriðum hérna inni.  Ég vona reyndar að myndirnar hafi orðið örlítið betri, finnst mér hafi farið fram þar.  En sjálft efnið, hvernig ég tækla hlutina og smekkur minn, hann hefur lítið breyst.  Ég er afskaplega lítið hlynnt því að elta tískustrauma, nema auðvitað ef þeir eru mér að skapi.  En þá er það í raun ekki ég að elta tískuna, heldur tískan loksins að henta mér 🙂  Flókið fyrirbæri sko.

Málið er nefnilega að þessi “bransi”, sem gengur út á like og slíkt, er ólíkindatól.  Maður er sér að heimsóknir telja á þúsundum, en like-in eru kannski 30.  Þá fer hausinn af stað að spá í hvort að það sé ekki eitthvað sem má gera betur.  Eitthvað sem hefði átt að vera skemmtilegra, flottara eða bara öðruvísi.  En svo er það kannski bara staðreynd að fólk er ekki að “nenna” að like-a allt saman.  Það bara les, búið og bless – og er það ekki bara allt í lagi? 🙂

Stundum er líka dásamlegt að lesa eitthvað, sem að fær mann til þess að segja jááááá og einmitt – og þannig leið mér einmitt þegar ég las stjörnuspánna hennar Siggu Kling fyrir haustið, en í henni stendur:

“En þegar þú gefur of mikið eða meira en þú átt getur það nálgast yfirborðsmennsku. Það fær þig til að finnast eins og þú sért með holu í hjartanu og draga úr þessari skínandi persónu sem þú ert. Svo hleyptu þeim inn sem langar svo sannarlega að hjálpa þér áfram, deila með þér lífinu og hleypa birtu inn í það.

Hvar sem þú ert staddur í þjóðfélaginu ertu með þennan X-factor til að skína. Svo aldrei efast um að þú sért stjarna, sama hvar þú ert staddur og alveg sama á hvaða kaliberi. Þú ert mikill sögumaður, fólk elskar að hlusta á þig segja frá einföldum atvikum og gera þau að svo mögnuðum sögum að fólk nær ekki andanum.

Þú ert á mjög merkilegum tímapunkti núna. Þú flakkar í huganum frá því að finnast eins og þú getir allt og yfir í það að þú sjáir ekki sólina og að lífið hafi ekki tilgang. Þú ert tilfinningaleg háspenna. Ef þú skoðar þá sem hafa náð árangri í lífinu þá einkennir þær persónur akkúrat þetta viðhorf; „ég get allt“ niður í „ég get ekkert“.

Þú kemur til með að ná betri stjórn á þessum tilfinningalegu hæfileikum og það hafa verið miklir möguleikar á breytingum hjá þér síðan í júní, en þú þarft að segja: “JÁ” við því að þú sért tilbúinn í þessar blessuðu breytingar.”

Smella hér til að þesa meira af spánni hennar Siggu…

Er þetta ekki alltaf svona.  Rússíbaninn, þú ert upp og svo allt í einu niðri.  Þú getur allt, þú getur ekkert. Fyrir sjálfa mig þá veit ég að ég er minn harðasti gagnrýnandi og þarf stundum bara að slaka á þeim kröfum sem ég geri.

Svo til þess að þetta hljómi örugglega eins og Óskarsverðlaunaræða, þá langar mig líka sérstaklega að þakka þessum hérna, sem stendur mér ávalt við hlið og hjálpar mér með vel flest af þeim hugmyndum sem ég fæ, hversu kreisí sem þær hljóma í hans eyru þegar að ég segi fyrst frá þeim ❤️
Ég gæti afskaplega lítið gert án hans, og myndi ekki vilja gera þetta án hans!
Í það minnsta, þá vildi ég sagt hafa – takk fyrir að gefa þér tíma til þess að kíkja við og skoða!  Takk fyrir like-in og stuðninginn, félagsskapinn og samveruna.
Einfaldlega, takk fyrir að memm ❤️
ykkar Soffia

14 comments for “20.000…

  1. Margrét Helga
    05.09.2017 at 08:50

    Mín er sko ánægjan að vera memm!! Yndislegt að lesa bloggið þitt og fá húmorinn, lífleikann og snilligáfuna í skreytibreytihlutum í æð 🙂 Kannast við þetta allt of vel, að finnast maður eina stundina vera ekkert og stuttu seinna getur maður sigrað heiminn! Kíp öpp ðe gúdd vörk mæ djér!!! Þú ert frábær og æðisleg og gerir heiminn betri 🙂 Er þakklát fyrir að hin tíðu komment mín (lesist: Eltihrellistendensinn 😉 ) hafi skilað mér því að hafa fengið að kynnast þér örlítið :*

    Knús í hús!

  2. Guðrún
    05.09.2017 at 09:04

    Til hamingju með tuttuguþúsundin og endalausar þakkir fyrir allt það sem þú gefur af þér <3 Það væri óskemmtileg tilhugsun að hafa ekki bloggið þitt til að lesa og gleðjast yfir. Þú ert frábær!

  3. 05.09.2017 at 09:27

    Hæ og hó mðinn kæra og innilega til hamingju! Þvílíkt glæsilegur árangur. Og góða skemmtun og gott gengi áfram!

    Ps ég hef misst af pósti, ef hann var einhver? um klukkuna gömlu sem ég sé þarna á síðustu myndinni, var byrjuð að mála eina svona gamla með mustard lit í Milk paint frá Stínu Sæm en sýnist þín klukka stærri og flottari! Best ég ljúki nú verkinu eftir kartöfluupptekt, þú hefur blásið mér byr í brjóst, það dugar auðvitað engin leti 🙂 !!

  4. 05.09.2017 at 09:29

    MÍN kæra – átti þetta að vera, agaleg villa í þessu þarna hjá mér og ég finn ekki leið til að laga hana 🙁

  5. Harpa Hannibals
    05.09.2017 at 09:30

    Takk elskuleg fyrir bloggin þín þau eru bara yndisleg. Hlakka alltaf til þeirra og tek þeim fagnandi ❤ knús í hús á þig og þína 😊

  6. Svala
    05.09.2017 at 10:05

    Takk fyrir þig elskulegust og öll góðu ráðin og endalausu hugmyndirnar <3

  7. Gurrý
    05.09.2017 at 11:42

    Til hamingju með fylgjendurna mín yndislega, þú ert líka svo frábær og fabjúlös að það er leitun að öðru eins. Knús í þitt fallega hús elsku gull 🙂

  8. anna sigga
    05.09.2017 at 12:15

    Þú mikli nagli, hugmyndsjóður og skemmtilegi penni 😊 Til hamingju með 20 þúsund fylgjendur! Það er algjörlega magnað…knús á þig og þína 😊😊

  9. Margrét Milla
    05.09.2017 at 15:53

    Nei takk þú! Dásamlegt Blogg sem ég les alltaf.

  10. Heiðrún
    05.09.2017 at 20:10

    Alltaf gaman að lesa bloggið , mig langar að forvitnast í leiðinni … hvar fékstu þennann fallega kúluvasa sem er á myndunum

    • Soffia - Skreytum Hús...
      06.09.2017 at 16:50

      Takk fyrir <3 hann er úr Módern!

  11. Linda
    05.09.2017 at 22:39

    Til hamingju með tuttuguþúsundin. Alltaf gaman og fróðlegt að lesa bloggið þitt, takk 🙂

  12. Sigrún Anna Jónsdóttir
    06.09.2017 at 11:20

    Elsku Soffía..
    Til hamingju með 20.000. Hefði ekki verið hissa þó þetta hefði talið 200.000
    Þú miðlar svo fallega bæði í máli og myndum. Svo mildilega og blítt.
    Þú ert heil í því sem þú gerir og það gerir þig einstaka .
    Allir geta gert fallegt hjá sér með þeim snilldar hugmyndum sem þú bendir okkur á án þess að það kosti mikið.
    Samhent hjón og krúttuð börn. Til hamingju öll með hvort annað..👨‍👩‍👧‍👦
    Hefur eitthvað verið rætt um að klóna þig..???
    Gæti hugsað mér eintak af þér hér heima.
    Er nefnilega alltaf að breyta og bæta og stundum svolítið uppiskroppa með úrræði.🤔
    Gangi ykkur allt í haginn allann daginn ,!🤗
    Kveðja Sigrún Anna

  13. Kristín S
    06.09.2017 at 20:01

    Ég er klárlega ein af þeim sem les of oft án þess að gera nokkuð meira, skil þó stundum eftir mig spor hér.

    Til hamingju með þennan flotta árangur, þú ert búin að gera meira en margur sem fær greitt fyrir að sinna svona síðu. Ég fæ gríðarlega oft góðar hugmyndir hér og hef virkilega gaman af því sem þú ert að gera, takk fyrir það allt.

    kv. Kristín S

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *