Discovery Cove – Florída…

…þar sem það er nú að verða ár liðið frá ferð okkar til USA, þá er ekki úr vegi að fara að klára að segja ykkur frá því sem við gerðum.  Þvílíkur seinagangur í einni konu.  Ég var búin að gera póst um Disney og annað slíkt, en eitt af því sem stendur einna mest upp úr eftir ferðina, var alveg hreint dásamlegur garður sem við fórum í. Um er að ræða Discovery Cove, en þetta er hreint út sagt paradís.

Þú kemur fyrst á þetta hérna bílastæði, bara inni í Orlando, og hinum megin við götuna er Sea World.
Það er svo alveg ótrúlegt að bara með því að ganga þarna inn, þá ertu komin í annan heim.  Nánast sannfærð um að vera einhverri eyðieyju fjarri mannabyggð.

Inngangurinn gefur samt til kynna ævintýrið sem fyrir höndum er, og restin er svo draumi líkust.
Þó er rétt að taka það fram frá upphafi að þetta er ansi hreint dýrt.  Fyrir daginn er greitt um $249 (tæplega 30þús) á mann.

Þannig að þetta er ekkert gefins.  Hins vegar er líka rétt að geta þess að með miðanum færðu aðgang í tvo aðra garða ( SeaWorld® og Aquatica, SeaWorld’s Waterpark™) og gildir það í 14 daga, í kringum þá dagsetningu sem þú ert í Discovery Cove.  Einnig er inni í þessu gjald fyrir að leggja bílnum á þessum stöðum.

Inni í Discovery Cove er síðan allt “frítt”.  Það þýðir að þú ert þarna inni allan daginn án þess að hreyfa við veskinu (enda er það dauðþreytt eftir vinnuna við að komast inn).  Þú borðar frítt, allir drykkir og allt snakk og nasl er innifalið.  Hús, eins og þetta á myndinni hér að neðan, eru staðsett út um allt – þar er hægt að fá drykki, mat, snarl og jú, meira segja bjór og slíkt…

Þetta er líka pakki sem felur í sér 30mínútna sérsundtíma með höfrungum, og auðvitað allt hitt sem garðurinn hefur upp á að bjóða.

Annað sem er líka sérstakt við garðinn er að það er bara viss fjöldi sem fær aðgang á degi hverjum.  Það þýðir enginn troðningur, engar raðir og ekkert vesen.  Trúið mér, eftir Disney-ferð og endalausar raðir eftir tækjum, þá er það lúxus sem maður kann að meta 🙂

Paradísin tók við, strax við innganginn…

…og ekki bara fegurðin, heldur líka kyrrðin…

…sjáið bara – sólstólar sem eru ekki fullir…

…við byrjuðum daginn því á morgunverði, af hlaðborði, eins og hver gat í sig látið – á meðan litlir smáfuglar hoppuðu við fætur okkar og týndu þá mola sem frá borði féllu…

…allt svo snyrtilegt og fallegt…

…eins og þið sjáið, þá situr þarna lífvörður, en þeir eru út um allt til þess að gæta að fólki sem er að njóta verunnar í garðinum…

…það eru hengirúm, og sólbekkir og annað slíkt…

…ekki spurning hvað sumir velja…

…síðan eru í garðinum nokkur lón…

…við byrjuðum á að röla í gegn þar sem fuglarnir eru…

…og þeir setjast á hendurnar á manni til þess að gæða sér á ávöxtum…

…okkur öllum til mikillar ánægju…

…og ekki oft sem maður sér páfugla sitjandi á greinunum fyrir ofan mann…

…svo fallegir fuglar…

…gaurinn fékk auðvitað líka að gefa…

…og var fremur sæll þegar það tókst að fá fugl að setjast og snæða…

…síðan var skipt yfir í sundbúninga og haldið af stað í aðalævintýrið…

…en eins og þið sjáið þá er þetta svæðaskipt.  Það er lónið þar sem höfrungarnir eru (Dolphin Lagoon), og þar er sér “dagskrá”.  Síðan er lón (Tropical Reef) þar sem þú getur synt með skötum og öðru slíku sjávarfangi.  Þar var ég smá að fríka út – skötur eru ekki huggulegustu risadýr sem ég hef séð.  Svo var það áin (Wind away river).   Þetta er auðvitað á sem er gerð af mannahöndum, en eins og áður sagði þá líður manni eins og maður fljóti um í frumskógi einhversstaðar.  Það er hlýtt vatnið og straumur í ánni, þannig að þú þarft að fara í sundkút, enda líka dágóður spölur.  Þú flýtur í gegnum dvalarstaðin þar sem fuglunum er gefið, og horfir bara á páfuglana og aðra framandi fugla allt um í kring, getur tekið smá útúrdúra og kíkt á otrana sem eru að synda og leika sér, letidýrin sem hanga og slappa af, og örlitlir smáapar sem búa þarna í eyju.

Image result for discovery cove map

Orð fá þessu ekki lýst, en þetta er bara geggjað – við fórum tvisvar sinnum allan hringinn í ánni því þetta var svo dásamlegt eitthvað…

…þessi félagi reyndi reyndar að gogga í gaurinn okkar, en sá ásetningur mistókst sem betur fer..

…allir glaðir með að vera ógoggaðir…

…sköturnar, í það minnsta meter á stærð…

…gott að ég er bara að taka myndina, því að ég var ekki sérlega kát á svipinn…

…líkar mun betur að vera með þessum á þurru landi sko…

…það voru reyndar smá vonbrigði, en þessi litli gaur fékk ekki að fara með í höfrungakennslustundina, þar sem vantaði tvo mánuði upp á að vera orðinn 6ára.  Það var svekkelsi, en sem betur fer er hann nú skynsamur og tók þessu vel…

…annað en móðirin sem var að kafna úr samviskubiti og starði bara stöðugt á soninn til þess að kanna hvort að hann væri nokkuð að skaðast fyrir lífstíð af þessu svekkelsi…

…á meðan fékk systir hans drauminn sinn uppfylltan…

…þvílíka gleðin…

…og fyrir ykkur sem veltið því fyrir ykkur – þá er eins og að klappa blautu gúmmístígvéli að klappa höfrungi…

…smá sundferð…

…og svo fékk litli maðurinn auðvitað að vera með á mynd…

…og amma og afi líka…

…og það góða var að sá stutti samgladdist systur sinni svo mikið að hann pældi ekkert í að hafa ekki fengið sundferð sjálfur…

…selfie famelían…

…og svo dásamlegur dagur að kveldi kominn…

…og að öðrum görðum ólöstuðum, þá stóð þessi svo mikið upp úr!  Þetta var líka svo ljúfur og góður dagur, en samt svo spennandi og eftirminnilegur…

… kannski smá leiði hjá “gírraffabarninu” (sjá þessa leggi) að þetta sé bara búið…

…æji sjáið eyrað – ég fæ krúttukast…

…en allt er gott sem endar vel…

…og já við getum ekki verið túristalegri!  Og já, þeir eru alveg eins feðgarnir á sitt hvorum endanum 🙂

Þannig að, ef þið hafið tök á – þá mæli ég eindregið með þessari upplifun sem Discovery Cove er.  Dýrt, en við sáum ekki eftir krónu!

ps. þætti vænt um að þið mynduð smella á like-hnappinn ef þið höfðuð gaman af póstinum!

Þú gætir einnig haft áhuga á:

3 comments for “Discovery Cove – Florída…

 1. Margrét Helga
  04.05.2017 at 10:54

  Greinilega snilldarferð! 🙂 Set þetta á planið ef við förum einhverntímann til Flórída 🙂

 2. Kristín
  08.05.2017 at 21:20

  ohh vá! Þetta er draumagarðurinn minn, hef farið oft til Flórída en er alltaf að bíða eftir að yngsta barnið verði 6 ára svo við getum öll farið að synda með höfrungunum 🙂

 3. Anna Olafsdottir
  09.05.2017 at 08:53

  Erum einmitt á leið til Florida í ágúst …kannski maður splæsi í garðinn. Er jafn dýrt inn fyrir barn?

Leave a Reply

Your email address will not be published.