Stelpuherbergi – fyrir og eftir…

…sko þannig er mál með vexti að ein af mínum bestu vinkonum á litla dömu sem er 4ra ára.  Þessi snót á dót, já ég ríma á föstudögum, og það nóg af því.  Herbergið hennar hafði fengið að sitja svolítið á hakanum sökum anna við hitt og þetta sem þarf að sinna á stóru heimili.  En nú ákvað mín kona að tími væri kominn á skurk og þetta yrði bara tekið alla leið.

Við höfðum áður gert stelpuhorn hjá þeim (sjá hérna), þegar þessi litla snót kom í heiminn og það gekk svona líka vel, enda erum við vinkonurnar eins og sitt hvor hliðin á sama visakortinu, og því bað hún mig um að gera þetta með þeim.  Fannst mér það leiðinlegt?  Neiiiiii, enda eru barnaherbergi einhver skemmtilegustu rými sem hægt er að gera.

Daman býr svo vel að allur fatnaður er geymdur annars staðar en í herberginu.  Þannig að við vorum að hugsa þetta þannig að nóg af plássi væri til þess að leika sér á gólfinu (þar sem 70% af leik barna fer fram á gólfi), og að auðvelt væri að ganga frá.

Hér koma því fyrir myndirnar af herberginu, sem er ekki stórt en þurfti að geyma margt…

…eins og sést þarna vorum við búnar að gera smá málningarprufu á vegginn 🙂

Litla daman um valdi litinn og hvað haldið þið. jújú – bleikur var það heillin!

Ekki bara bleikur, heldur auðvitað sá Gammelbleiki úr SkreytumHús-Litakortinu – gazalega smekkleg hún litla vinkona mín…

…annað réðist í raun bara eitt af öðru eftir að aðaltriðið fannst, sem var rúmið.  En ég er að hugsa um að setja inn bara hrúgu af myndum og svo annan póst þar sem ég útskýri nánar pælingar á bakvið hitt og þetta.

Fyrir…

…eftir…

…fyrir… …eftir…

Eins og kannski glögglega sést á myndunum þá er herbergið mikið breytt.   Það fyndna var samt að það fór út alls konar húsgögn, en inn komu bara tvær stórar mublur. Rúmið sem er með áföstu skrifborði/hillu, sem hægt er að ýta inn til þess að skapa meira gólfpláss, og síðan skápurinn hvíti, sem tekur ansi mikið af dóti.

Rúmið er því algjör snilld og fæst í Rúmfó – sjá hér!

Ef þið eruð að leita að Barbie-húsinu, þá fór það á annan stað á heimilinu, þar sem var verið að útbúa auka leikpláss…

…snilldin við þetta rúm er allt þetta geymslupláss sem verður til undir því.  Þar er hægt að geyma pokana fyrir alla bangsana og allt hitt sem fylgir smáfólkinu…

…ég færði líka bókakörfurnar annað og setti t.d. Playmo húsið þarna undir, og það kom bara fínt út…

…og annað sem gerir svo mikið fyrir herbergi, það er að vera með svona síðar gardínur.  Það verður svo mikið hlýlegra og hærra til lofts þannig…

…svo munið þið hvað ég sagði með gólfin, það er nauðsynlegt að vera með góða mottu fyrir þessi kríli…

…falleg ljós eru líka nauðsynleg!  Hér eru t.d. útipottar úr Rúmfó sem fengu nýjan tilgang…

..svo eru það auðvitað smáatriðin krakkar, alltaf smáatriðin…

…skápurinn góði er ekki bara fallegur fyrir augað…

…nei manni minn, hann geymir líka heilan hafsjó af leikföngum sem auðvelt er þá að kippa út og henda aftur inn.  Góður aðgangur að dóti er nauðsyn og svo er auðvelt að taka til – þá eru allir glaðir…

…og eins og alltaf, þá skreyti ég bara hillurnar með leikföngum og öðru slíku.  Smá blóm eða annað slíkt er alltaf fallegt fyrir augað…
…en fyrst og fremst, leikföngin notuð í skreytingar…

…á hurðavegginum varð til smá grúbba, snagahilla fyrir veski og annað slíkt, speglar og svo bara punterý…

…fyrir áhugasama, þá tók ég rúnt um herbergið á snappinu í dag, og er það inni fram til morguns (1.apríl).
Snappið er soffiadoggg – og ég mun líka vera í herberginu á mánudaginn í hádeginu, ef þið hafið spurningar eða viljið að ég sýni ekki eitthvað séstakt betur…

…ég skal setja inn lista yfir hvað flestir hlutirnir heita og meiri myndir af smáatriðum, en svona til glöggvunar – þá var nánast allt úr Rúmfó.  Fyrir utan skápinn, þá eru rúm, motta, speglar, geymslupokar/kassar, gardínur – þetta var allt úr Rúmfó. En aftur, ég skal setja inn hvað er hvaðan og nöfnin á þessu eftir helgi!

Jafnvel svona skref fyrir skref-póst!

Þangað til, knús inn í helgina ♥

P.s. ykkur er alltaf frjálst að deila póstinum og ef þið smellið á like – þá verð ég sérlega glöð og kát í hjarta ♥

Þú gætir einnig haft áhuga á:

7 comments for “Stelpuherbergi – fyrir og eftir…

 1. Anonymous
  31.03.2017 at 19:29

  Allt svo fallegt hjá þér og litla daman hlýtur að vera í skýjunum.

 2. Anonymous
  31.03.2017 at 20:22

  Vá hvað þetta er fallegt

 3. Anonymous
  31.03.2017 at 22:10

  hvar fékkstu skápinn?

 4. Margrét Helga
  03.04.2017 at 08:28

  Vá hvað þetta er flott!!! 😀 Mikið óskaplega er þessi unga dama heppin 🙂

 5. Ása
  04.04.2017 at 09:07

  Mikið er þetta yndislegt herbergi.

 6. Ragnhildur Skula
  13.08.2017 at 09:20

  va vá vá þu ert ALGeR snillingur 💪🏻💪🏻😍😍

 7. Sigurveig
  10.11.2017 at 03:34

  Mottan sem er í þessum pósti er ekki til. Ertu með tillögu að annarri mottu sem passar vel við gammel bleikan?

Leave a Reply

Your email address will not be published.