Nýtt ár – 2018 ♥

Hvenær er ég nóg?
Er það ekki bara svolítið málið!

Ef það er einhver sem er snillingur í að tæta þig niður, í að spila á óöryggið þitt, í að pota í alla veiku punktana – þá er það væntanlega þú sjálf!

Ég held nefnilega að við, sérstaklega við konur eftir því sem ég best sé, erum snillingar í að ofhugsa hlutina og að flækja þá um of, bæði fyrir okkur og fyrir öðrum.  Stundum eigum við það til að lesa í þögnina, að lesa í svipbrigðin, að lesa í það sem að enginn segir og út úr því fáum við oft alveg rosalega fléttur og atburðarás.  Sem oft, á sér bara stað innra með okkur.

Ég stend mig til dæmis að því að lesa þvílíkt í “like-inn” eða lesa í lækinn 🙂 Ég er auðvitað með þessa síðu og ég set færslur inn á Facebook, og það færslan fer á flug þá finnur maður þessa þvílíku gleðitilfinningu (örugglega svona eins þeir sem stunda áhættuspilun eða álíka) og svo þegar like-in eru fá, þá verður maður ósjálfrátt leiðari.  Fer að efast um sjálfan sig og eigið ágæti.  Að finnast maður ekki vera nóg.

Ég var einmitt að hugsa þetta um daginn, þegar ég setti inn póst sem hóf sig af stað og allir voru að keppast við að hrósa mér, ég fann þessa kunnuglegu tilfinningu, stoltið sko, og klappaði sjálfri mér kumpánlega á bakið.  Vel gert stelpa.  Næsta færsla, fékk bara nokkur læk.  Nokkur læk?  Hvar voru allir þessir hundruðir sem voru “vinir” mínir í gær. Var ég þá ekki nóg þennan daginn? Þá leiddi ég einmitt hugann að þessu, ef ég – fullorðin kona sem þekkir sjálfa sig að öllu leiti, fer að efast um eigið ágæti – hugsið ykkur bara hvernig þetta fer með krakkana okkar sem setja inn myndir og eru að vonast eftir like-um sem kannski koma ekki.  Þetta er auðvitað alveg fráleitt.  Ég finn þessa tilfinningu iðulega, maður er mikið einn í þessu.  Vinnur hérna heima.  Er ekki í félagsskap með öðrum á blogginu, eins og margir aðrir sem blogga.  Þannig að viss “einmannaleiki” getur fylgt þessu.

En þetta er samt svona.  Maður er sterkur í dag, og veikari á morgun, svo er aldrei að vita nema daginn þar á eftir verði maður sterkari en nokkru sinni fyrr.  Það eina sem hægt er að gera – er að vera samkvæm/ur sjálfri sér.  Því ef þú ert ekkert að reyna að vera einhver annar, þá er alveg víst að þú ert alltaf besta útgáfan af sjálfri þér.  Það er alveg óhætt að fullyrða, að það á aldrei neinn annar eftir að vera betri í að vera þú, en einmitt þú.

Þegar nóvember og desember ganga í garð, þá koma alls konar viðburðir og ég hitti margar af ykkur á förnum vegi.  Þið hafið verið svo duglegar að hrósa mér, að þakka mér fyrir og gefa mér hreinlega bara ást og hlýju.  Fyrir það þakka ég af öllu hjarta.  Það sem ég ætla að reyna að gera á móti, er að taka á móti hrósunum ykkar með bros á vör og gera ekki lítið úr sjálfri mér og því sem ég hef afrekað. Því að hreinlega segi ég það upphátt, ég hef gert þetta sjálf, þetta er ég, þetta er mitt.

Nýtt ár – nýjir möguleikar – hreint blað!
Nýtt ár er alltaf loforð um að nú sé tækifærið í að finna sína bestu hlið og breyta “rétt”.  Það er ekkert til sem heitir að gera allt rétt, eða að sigra heiminn í raun og veru, en hins vegar er alltaf möguleikinn að breyta sjálfum sér og jafnvel sínum aðstæðum.
Það er nefnilega þannig að það er mjög erfitt að breyta heiminum, það eru nefnilega svo afskaplega margir í þessum heimi þið skiljið.  En það er “auðveld” lausn á þessu, og hún er sú að ef hver og einn breytir einhverju hjá sjálfum sér, og sýnir sína bestu hlið, þá gæti ansi margt breyst á ansi skömmum tíma.
Við getum illa breytt hegðun annarra, en við getum breytt því hvernig við bregðumst við hegðun náungans.

Mér þykir afskaplega vænt um ykkur lesendur mína, sem og ykkur sem eruð inni á SkreytumHús-hópnum, og auðvitað á Snappinu, og eruð þarna af heilum hug og njótið þess að taka þátt í samfélagi sem vill vera að breyta og skreyta, og auðvitað bæta!

Takk fyrir mig, takk fyrir árið og ég vona að árið 2018 verði ykkur dásamlegt og hamingjuríkt ♥

Soffia

 

5 comments for “Nýtt ár – 2018 ♥

  1. Gurrý
    02.01.2018 at 10:48

    Takk fyrir skreytingaárið mikla 2017 og ég hlakka til að lesa meira og skoða snöpp, fá ráð og umhyggju á nýja árinu. Haltu áfram á þinni frábæru vegferð og láttu aldrei deigan síga yndislega þú. Þú ert svo frábær!

  2. Sigríður Þórhallsdóttir
    02.01.2018 at 11:26

    Takk sömuleiðis fyrir bloggið og gera alla daga betri með því 🙂 vona að árið 2018 verði þér og þínum til gæfu og góðs 🙂

  3. Margrét Helga
    02.01.2018 at 13:34

    Vá hvað ég tengi mikið og vel við þessa bloggfærslu!! Ég er reyndar í sömu sporum og þú, vinn heima, ein nema hvað ég er ekki að blogga og fæ því þar af leiðandi ekki nein like á það sem ég geri nema mögulega á facebook en ég er duglegri að setja like við færslur hjá fólki en að setja inn færslur sjálf þó það komi ein og ein. Er hrikalega dugleg að brjóta mig niður og vera minn eigin óvinur og myndi aldrei segja við nokkra einustu manneskju það sem ég segi við sjálfa mig. EN!!! Nýtt ár, nýjar áskoranir, hreint blað. Er ekki um að gera að reyna að vera góður við sjálfa sig á nýja árinu og manns eigin besti vinur?? Held það barasta.

    Takk fyrir að vera til og fyrir að vera þú. Og maður er alltaf nóg og yfirleitt meira en það. Maður sér það bara ekki sjálfur.

  4. Vala Sig
    04.01.2018 at 13:26

    Takk fyrir árið 2017, er spennt að sjá alla frábæru hlutina sem þú tekur þér fyrir hendur 2018

  5. Magga Einarsdóttir
    05.01.2018 at 14:37

    Gleðilegt ár skreytingasystir, takk fyrir alla póstana, pælingar, snöppin og viðburði hjá fyrirtækjum. Bíð spennt eftir að fylgja þér eftir á árinu 2018.

Leave a Reply to Gurrý Cancel reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *