Uppröðun og svo aftur…

…þið vitið orðið hvernig ég er með þessi húsgögn og hillur hérna inni.

Þær eru nánast á stöðugri “hreyfingu” sökum þess að ég á erfitt með að vera til friðs, í það minnsta til lengri tíma.  Ég er samt, svona oftast nær, með sömu hlutina í þessum hillum.  Bara breyti uppröðun, einstaka hlutur bætist við og sumir færast á annan stað.

Vittsjö-hillan sem við breyttum (sjá hér) er mjög skemmtileg til þess að raða í.  Jafnvel skemmtilegri en Hyllis-hillan okkar (sjá hér) af því að það sést auðvitað allt betur.

Fyrir utan styttur og annað slíkt nýlegt, þá finnst mér ótrúlega gaman að hafa “vintage/gamla” muni með…

  …ég er mikill safnari að eðlisfari og elstu hlutirnir í hillunni, sem ég hef keypt, voru keyptir fyrir um 25 árum.  En þegar ég byrjaði í Kvennó, þá var maður svo mikið niðri í miðbæ og ég elskaði að rölta í antíkbúðunum og finna gamlar myndavélar og annað slíkt…

…lóðin eru t.d. síðan ca 1930, og koma frá afa mínum sem var bakari og þau voru notuð til þess að vigta með í bakaríinu…

…eins nota ég körfur fyrir blöð og bækur, svona í neðstu hillunum…

…eins finnst mér þessar vatnsflöskur æðislegar – en þær eru gamlar og keyptar á markaðinum hjá henni Kristbjörgu á Akranesi

…verandi kona sem stundar markaði, þá finn ég alls konar gersemar, eins og hurðarnar góðu sem urðu að rennihurð fyrir þvottahúsið (sjá hér).  En það sem meira er, ég fékk mér fjórar hurðar!  Hví spyrjið þið?

Ég barasta stenst ekki fagra hurð ef ég sé hana!  Abbsakið mig 🙂

Þessar sem eru hér á myndinni eru mjórri týpan, en ég fékk líka örlítið breiðari, sem ég málaði líka…

…eins og fullkomlega eðlilegt er, þá var ég að rölta um með hurðar og vissi vart hvar ég átti að pota þeim og fékk smá hugdettu. Skellti bara hurðunum á bakvið hilluna…

…gaman að sjá hvað allt breytist við dökkan bakgrunninn…

…verður dulítið dramatískara…

…og eeeeldgamla ritvélin mín er sko einn af uppáhaldshlutunum…

…ég held líka að það verði alltaf skemmtilegra að horfa á hillur/bakka/borð, þegar það eru komnir svona alls konar mismunandi hlutir sem heilla þig með.  Eins og t.d. myndavélarnar…

…og svo er ágætt að muna að skart getur skreytt meira en hálsa og hendur, hillur eru sko kjörnar til þess að geyma svona gersemar…

…ok, þetta var kannski ekki mikið um uppröðun, en þið náðuð að skoða ágætlega uppröðunina í hillunni…

…og það er bara gaman að leika sér að þessu.
Nokkrir punktar:
* Reyndu að ráða hlutunum á mitt borðið, ekki upp við veggi.  Halda sjónrænu “jafnvægi” – hvernig myndiru setja þetta á borð/hillu ef þú værir að gæta þess að hún myndi halda jafnvægi.
* Grúbbaðu saman, nokkrir kertastjakar, nokkrir vasar.  Pör eða tríó virka alltaf.
* Ef þú ert með einn stóran hlut – þá geturu sett nokkra minni hluti á móti.
* Ef þú safnar einhverju, stilltu því upp.  Þetta er hluti af þér og þínum persónuleika – það er það sem fólki finnst gaman að skoða og sjá.
* Ef hlutirnir sem þú safnar eru smáir, eða erfiðir til uppstillinga – þá eru glerbox og kúplar að koma sterkir inn og allt verður “spari”.
* Ekki setja bækurnar og þyngstu hlutina í efstu hillurnar, þetta er jafnvægislist 😉
* Ef þú ert með bakka, þá ertu t.d. með “fullkomna” uppröðun með kertastjaka (1-3), vasa/blómapott, og svo einn aukahlut (styttu, hnött).

…og myndarammar og ljósmyndir, það er eitthvað sem ég nota óspart og í öllum hillum hjá mér.  Persónulega líður mér ofsalega vel með myndir af börnunum mínum fyrir augunum, og mér finnst svarthvítar alltaf svo tímalausar og koma fallega út…

…en að lokum fóru hurðarnar aftur út í skúr.  Þar til hinn fullkomni staður finnst!

En það er gaman að prufa – og það getur oft breytt ásýnd hlutanna og þess vegna gefið gömlum hlutum alveg nýtt líf.

En hvað segið þið annars gott?  Eitthvað vit í svona pósti?

Eruð þið enn að vilja uppröðunarpósta? ♥

ps. þætti vænt um að þið mynduð smella á like-hnappinn ef þið höfðuð gaman af póstinum og ekki væri nú verra að heyra aðeins frá ykkur!

5 comments for “Uppröðun og svo aftur…

  1. Margrét Helga
    06.02.2017 at 08:06

    Vá hvað hillan og innvolsið í henni breyttist með svarta bakgrunninum! Hrikalega töff 🙂 og ég er alltaf til í svona uppröðunarpósta…er voðalega mikill klaufi í þessu sjálf 😉

  2. Jenný
    06.02.2017 at 08:31

    Segi það sama, ég er óttalegur klaufi í uppröðun, svo gott að fá leiðbeiningar frá snillingi eins og þér👍😉

  3. Kristín Hólm
    06.02.2017 at 09:42

    Takk fyrir skemmtilegan póst.

    Í um 30 ár, eða frá því ég byrjaði að búa, hef ég velt uppröðun hluta fyrir mér. Í þá daga átti ég ekki mikið af dóti, en hafði gaman af að hreyfa það til þangað til mér fannst hluturinn vera kominn “heim”. Í dag, þegar allt flýtur bókstaflega í dóti hjá mér, finnst mér enn meira gaman að hræra í því og reyna að finna því svona “home”. Þess vegna finnst mér ómetanlegt að geta skoðað og fengið leiðbeiningar á þessari dásamlegu síðu þinni. Hafðu miklar þakkir fyrir að nenna að standa í þessu fyrir okkur hin 🙂

  4. Valgerður Bjarnadóttir
    06.02.2017 at 12:17

    Takk fyrir mig, fæ endalaust hugmyndir eftir að skoða póstana þína og eflaust eru margar/margir á sömu skoðun að þú ert okkur hugljómun í skreytingu híbýla okkar og annarra😀👍💕

  5. Villa
    10.02.2017 at 18:09

    Virkilega allt fallegt sem þú gerir ! Ég er einmitt mikið fyrir að mixa saman gömlu og nýju 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *