2016…

…og þar með er það búið, enn eitt árið liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka!

Ég veit ekki hvað gerðist eiginlega, það var nefnilega bara janúar um daginn og ég var að pakka niður jólaskrautinu, og allt í einu er komið að þessu sama aftur.  Það er eitthvað sem gerist um leið og maður eignast börn og tíminn þýtur í yfirgír.  Dagarnir líða eins og mínútur og þú sérð þetta best á börnunum sem vaxa og vaxa, þrátt fyrir að maður eldist auðvitað ekkert sjálfur.  Eða sko, maður eldist en vitkast kannski ekki í samræmi við það.  Svo er það helst þegar maður sest til þess að mála sig að maður fattar, jááá þarna eru nokkrar línur komnar sem voru ekki þarna í gær (lesist fyrir tveimur árum).  En það er svo sem allt í lagi, við viljum eldast og það eru svo sannarlega forréttindi að fá það.

Bloggið verður á þessu ári 7 ára.  Þetta litla áhugamál sem stækkaði aðeins yfir hausinn á mér og tók yfir allan minn frítíma og meira en það.  Ég á engar tölur yfir allar þær stundir sem hafa farið í þetta yfir þennan tíma, ekki einu sinni bara yfir þetta ár.  En þær eru margar.  Ég get hins vegar sagt ykkur að það hafa verið næstum 750.000 heimsóknir Ip-tala inn á síðuna á þessu ári.  Þannig að þó ég sé ein að skrifa hingað inn, þá er alls ekki ein hérna inni – það er notalegt að vita.

En nýtt ár þýðir ný markmið, nýjar pælingar og nýjar ákvarðanir.

En áður en við lítum fram á við, þá er um að gera að líta aðeins um öxl og gera upp árið – svona að einhverju leyti.

Þetta var annasamt ár, undarlegt ár, en þó líka skemmtilegt ár.

Dóttirin fyllti tuginn og varð loks 10 ára – sem var stórt skref.  Eins var sonurinn 6 ára og byrjaði í skóla – annað stórt skref.  Sjálf náði ég að dekka fjóra tugi á árinu og það er víst afrek út af fyrir sig.  Við fórum í ferð til Florída með krökkunum og tengdaforeldrunum, sem var langþráður draumur.  Fluttum mömmu og pabba á milli húsa, sem var erfitt en mjög gefandi og auðvitað svo margt annað.

En mig langar að týna til eitt atvik úr Ameríkuferðinni góðu.  Við fórum svo margt, í Disneyland og alls konar garða.  Gerðum ýmislegt.  En vitið þið hvað stendur upp úr?

Einn daginn var alveg hellirigning og þrumur og læti.  Við ákváðum að fara í bíltúr, upp á von og óvon og keyra að ströndinni, þrátt fyrir að veðrið væri eflaust ekkert mikið betra þar.  Við keyrðum í rigningunni og horfðum á himininn opnast fyrir ofan okkur.  Eftir rúman klukkustund vorum við komin á Clearwater beach.

 Klukkan var alveg að verða sjö að kveldi, og því orðið ansi áliðið.  Þarna hafði greinilega ekki rignt neitt, og veðrið auðvitað dásamlegt.  Krakkarnir voru með sundfötin sín og við gengum í fjörunni og alveg út í sjóinn.  Hann var hreint yndislegur, heitur eins og baðvatn.

Þetta var svo einfalt, svo skemmtilegt og svo eftirminnilegt.

Stundum þarf ekki meira en einn bíltúr til þess að breyta hvernig dagurinn okkar verður, og litlar skyndiákvarðanir geta verið svo góðar.

Svo er það auðvitað að njóta augnabliksins.

Sólin vermdi og að standa í heitum sjónum og horfa á sólina setjast var hreint ógleymanlegt.

Fegurðin sem er allt í kringum okkur – í þessu smáa, hvar sem það er.

Ekki er verra ef það er einhver sem vakir yfir manni og gætir að.

Úr þessum litla bíltúr, varð ein uppáhalds minningin mín úr þessu fríi.

Á sama tíma og við verðum að venja okkur við að vera ekki að kæfa okkur sjálf í samfélagsmiðlunum, þá er það samt ómetanlegt að gefa sér líka tíma í að smella af myndum.

Eiga þannig augnablikið, en ekki gleyma að taka það inn með eigin augum og skilningarvitum.

Við ♥

Nú er ég hætt að babbla.

Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur fyrir komuna hingað inn á árinu sem er að líða.  Fyrir fallegu orðin sem þið hafið skrifað og sagt við mig á förnum vegi.  Fyrir að gefa mér knús þegar ég hef hitt ykkur.

Ég vil hvetja ykkur til þess að reyna ykkur áfram í að gera heimilin ykkar að griðastað sem er ykkar eigin.  Þá á ég við að fylgið eigin sannfæringu, finnið það sem veitir ykkur gleði og ánægju og umvefjið þið ykkur í því.  Heimilið á að vera eins og framlenging á ykkar persónuleika og það sem skiptir öllu er að ykkur líði vel þar.

Tískur og trend þau koma og fara, það er gaman að spá í þeim og góð leið til þess að finna það sem þér þykir fallegt, og að lokum þá verður þú búin að draga saman úr þessu öllu það sem gerir þitt heimili að þínu.  Safnar öllu saman, veiðir úr það besta að þínu mati og gerir að þinni heild.

Til þess að vera væmin þá þykir mér afskaplega vænt um ykkur lesendur mína, sem og ykkur sem eruð inni á SkreytumHús-hópnum, og eruð þarna af heilum hug og til þess að vera, njóta og skapa.  Það er enginn sem neyðir neinn til þess að slá inn ákveðna netslóð og því ætti það að vera auðvelt að forðast síður sem þessa ef þetta er ekki það sem þið hafið gaman að.  Því er það mjög ánægjulegt að sjá svona marga leggja leið sín hingað inn.

Takk fyrir mig, takk fyrir árið og ég vona að árið 2017 verði ykkur yndislegt og happasælt ♥

Soffia

2 comments for “2016…

  1. Kristín Hólm
    31.12.2016 at 13:48

    Gleðilegt ár og takk fyrir allar fallegu hugmyndirnar þínar. Ég hef nýtt mér nokkrar þeirra og staðfært að mínu heimili með frábærum árangri. Takk 🙂

  2. Guðrún
    31.12.2016 at 15:24

    Gleðilegt nýtt ár til þín og þinna og innilegustu þakkir fyrir alla þína yndislega fallegu og hugmyndaríku pósta. Hlakka til nýs árs að njóta ef þú sérð þér fært að halda áfram. Takk, takk, takk 😘

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *