Af öllu hjarta…

…er ótrúlega gott að gera hlutina.

 Það er að reyna að gera það sem þú getur til þess að fylgja hjartanu eftir, fylgja eigin sannfæringu, og bara gera eins vel og maður getur gert.

Ég hef í raun alltaf reynt að fara eftir þessu.  Fyrst um sinn gerði ég þetta án þess að vita að ég væri að þessu.  Ég var nefnilega bara krakki, sennilega 7 ára þegar ég tilkynnti að ég ætlaði aldrei að drekka áfengi.  Ég var búin að ákveða þetta og við það hef ég staðið.  Varð víst fertug núna í sumar og get litið til baka án eftirsjár og vitandi það að ég hef staðið við loforðið sem litla stelpan gaf sjálfum sér.  Mér hefur aldrei þótt þetta vera erfið ákvörðun.  Ég sá af eigin raun bölið sem fylgir stundum áfengi og ég vildi aldrei fara í þá átt.  Ég er kannski helst stolt af unglinginum mér, sem stóð alltaf með sjálfri sér og stóð af sér allan hópþrýsting og spurningar, þrátt fyrir að vera að kafna úr minnimáttarkennd yfir hinu og þessu.

01-www-skreytumhus-is-is Í raun má segja að þetta hafi byggt upp karakterinn hjá mér og það er alltaf af hinu góða, gott að þekkja sjálfa sig.  En ég er líka, eftir bestu getu, sönn sjálfri mér.  Ég tók til að mynda upp á því þegar ég var bara um 14 ára að halda upp á söngkonu sem þótti ekki kúl.  En mér var alveg sama.  Ég bara hélt upp á mitt idol og var alsæl með það.  Enn í dag, þá hlusta ég á mína Kylie.  Svoleiðis er þetta bara 🙂

Það er líka bara þannig að manni er holt að gera hluti sem láta manni líða vel, og fara eftir því sem þú finnur að er rétt – í það minnsta rétt fyrir þig.  Til mynda þessi síða hérna.  Litla bloggið mitt var aldrei sett upp til þess að verða að því sem það er í dag.  Þetta var bara til þess að deila mínu áhugamáli, mínum pælingum og því sem mér finnst fallegt.  Þetta var ekki gert til þess að græða á því.  Eða til þess að verða stærsta “bloggið” eða neitt í þá áttina.  Þetta var bara spurning um að koma hlutum frá sér út í kósmósið.  Deila þeirri ástríðu og áhuga sem ég hef á því að gera fallegt.

Í dag er það ennþá eins.  Nema í dag er þetta stærra í umsvifum.  Ég er enn að deila því sem mér finnst fallegt, og það er aldrei neinn sem getur sagt mér að skrifa um eitthvað sem mér líkar ekki.  En hins vegar þá lifum við í samfélagi þar sem mikið er að gerast í öllum þessum bloggmálum, snöppum og bara þessu öllu.  Jafnvel of mikið.  Ég er farin að standa mig að því að skrifa ekki um eitthvað, af því að “allir” eru að skrifa um hlutina.  Ég er stundum að halda aftur af mér að sýna eitthvað, því ég vil ekki að ykkur finnast ég endalaust vera að reyna að selja ykkur eitthvað.43-www-skreytumhus-is-2015-001

Ég á það nefnilega til að taka hlutina aðeins of mikið inn á mig.  T.d. bara það að gera einfalda hluti eins og að henda út póstum á söluhópnum á Facebook, sem ekki passa undir lýsingu hópanna, það getur valdið mér miklu hugarangri.  Ég hef verið að biðja fólk um að virða reglur hópanna, en stundum virðist það vera flókið, og ég er alltaf “stressuð” þegar ég þarf að árétta fólk því ég nenni svo lítið að vera að standa í stappi við einhvern – sérstaklega ekki þegar það kemur að því að biðja fólk að vera ekki að selja þurrkara inni á söluhóp 😉 Undanfarnar vikur hafa verið sérstaklega erfiðar og svo leiðinlegt að þurfa að takast á við fólk, eitthvað sem ég forðast að gera eins og hægt er.  Ég geri mitt besta að vera sanngjörn, taka á öllum málunum sem berast inn á borð til mín (report-aðir póstar) og tækla hvert og eitt mál eftir bestu getu.

En hvers vegna þá?
Af hverju er maður að þessu?
Að setja inn færslu eftir færslu með “tilgangslausum dauðum hlutum” sem skipta engu máli?IMG_0744

Bloggin og allir þessir miðlar eru nefnilega á mikilli hraðferð þessa dagana.  Það eru allir og amma þeirra að blogga og keppast um að vera með sem mest.  Sýna sem mest. Fá mestu like-in. Stærstu gjafaleikina.  Mestu lætin.  Mig langar eiginlega ekkert í þennan fíling.

Þetta á td. við um Snapchat.  Ég ákvað að vera memm.  Skemmst er frá því að segja að ég ætla að setja inn snapp (snöpp?) þegar ég er að fara í skemmtilegar búðir eða sýna eitthvað hérna heima.  En ég ætla ekki að vera konan sem situr og talar við símann sinn.  Það blundar ekki í mér minnsta löngun til þess að verða raunveruleika”stjarna” og því er ég búin að taka þessa ákvörðun.  Allt í fínu þegar maður hefur eitthvað að segja.  En að sitja og tala bara til þess að setja eitthvað inn, því ætla ég að sleppa.  Ég á líka von á því að flestir sem leggja leið sína hingað inn séu farnir að “þekkja” mig að einhverju leyti, og ég held bara að ykkur sé alveg sama um hvaða þvottaefni ég nota.  Svona ef ég á að vera hreinskilin.

Þar fyrir utan þá er það glansmyndin sem bloggin sýna oft.  Ég vona líka að ykkur finnist þetta ekki vera glansmyndablogg.  Hreinskilningslega þá er bara oftast frekar hreint heima hjá mér, þannig líður mér bara best.  Hins vegar sýnir myndataka ekki hundahár á gólfi, drasl í þvottahúsi eða annað slíkt, og það er ég ágætlega ánægð með – því Guðveit að það er nóg af því.  Ég er ekki mikið að taka uppstilltar myndir, þetta er allt svoldið svona beint úr kúnni (ég er þá sem sé beljan í þessari myndlíkingu).47-www-skreytumhus-is

Það er enginn að segja að hér séu undur og stórmerki að gerast.  Ég er ekki að reyna að breyta heiminum og fæ ugglaust ekki Nóbelinn fyrir þessa síðu neitt á næstunni.  En hins vegar veit ég að út um allt er fólk sem býr við misjöfn efni og kjör, fólk sem langar að láta sér líða vel heima sér, langar til þess að finna fyrir stolti yfir sínu heimili.

Það er kannski svolítið um það sem málið snýst.  Ég hef alltaf verið að segja að það skiptir ekki öllu hvaðan gott kemur.  Það skiptir bara máli hvernig þér líkar hluturinn.  Púðinn sem kostar 1290kr í Rúmfó getur glatt þig alveg jafn mikið og púðinn sem kostar 29.000 í næstu búð.  Kosturinn sem Rúmfó-púðinn veitir þér hins vegar umfram þann dýra.  Er að a) ef einhver sullar í púðann og það næst ekki úr, þá er það allt í góðu (allir foreldrar kunna að meta svoleiðis) b)þú getur skipt púðanum út ef þú vilt án mikils samviskubits og án þess að vera enn að greiða hann niður á Visa-rað.

Við búum í samfélagi sem er ofsalega litað af tísku og straumum, af því að vera fansí og flott.  Það er gott og blessað, fyrir þá sem hafa ráð á því – en hinir, þeir þurfa að beita meiri kænsku og hugviti og það er vel!  Við höfum bara gott af því að hugsa út fyrir kassann, að finna það sem okkur finnst virkilega fallegt.  Það þarf ekkert alltaf að vera rauður I-límmiði til þess að þetta sé í lagi.

Eigið yndislegan dag ♥

IMG_0734

 

 

20 comments for “Af öllu hjarta…

  1. Jenný
    26.10.2016 at 09:58

    Það er akkúrat þess vegna sem ég fylgist með blogginu þínu og er í þessum Skreytum hús hópum, það er vegna þess að ÞÚ stendur að baki þeim, hreinskilin og heiðarleg manneskja með svo mikið af ódýrum og flottum hugmyndum. Haltu áfram að vera ÞÚ Soffía mín❤️

  2. Halla
    26.10.2016 at 09:58

    Haltu áfram að vera þú sjálf – knús í kosmósið 🙂

  3. Birgitta Guðjons
    26.10.2016 at 09:59

    Falleg kveðja frá þér í morgunsárið …..sýnir best hvar gildin liggja,þau sem skipta mestu máli.Bloggin þín eru alltaf svo lýsandi,einlæg og skemmtileg svo eru auðvitað myndirnar rúsínan á toppnum. Eigðu fallegan og góðan dag….minn verður klárlega betri eftir kveðjuna þína.

  4. Margrét Helga
    26.10.2016 at 10:10

    MUUUUUUUU…baulaðu nú Búkolla mín…. Nei djók…en auðvitað þurfti kúakerlan að taka eftir tengingunni 😉 Bara að láta þig vita að kýr eru æði!!

    Yndislegur póstur hjá þér…er algjörlega sammála Jenný hér að ofan, við fylgjumst með þessu bloggi vegna þess að það skín í þig í gegn. Hreinskilni, einlægni og almenn yndislegheit og samkvæm sjálfri þér. Tala nú ekki um smekklegheitin og hugmyndaflæðið með allskonar breytiskreytidæmi! Þú ert algjörlega yndisleg manneskja og góð í gegn <3

    Risaknús til þín og takk fyrir hlýjan og notalegan miðvikudagspóst 🙂

  5. Guðrún
    26.10.2016 at 10:15

    Takk Soffía, þetta eru þörf skrif og mjög góð. Það mættu fleiri vera þeir sjálfir og ekki í “kapphlaupinu”. Sömuleiðis er það svo frábær eiginleiki að kunna og geta hugsað út fyrir kassann og sjá möguleikana í gömlu og notuðu sem annars er grafið í jörðu. Það eru bara ekki allir svona sniðugir og frjóir eins og þú og þess vegna er ég, og örugglega fjöldinn allur annar, svo þakklát fyrir bloggið þitt og óeigingjörnu vinnuna við að birta það. Vonandi njótum við þess um ókomin ár – TAKK fyrir þetta allt <3

  6. Agnes
    26.10.2016 at 10:36

    Þú kætir mig með blogginu þínu, þú ert flott!!

  7. Margrét Milla
    26.10.2016 at 11:06

    Hef sagt þetta áður og stend við það, þú ert ein heilsteyptasta manneskja sem ég hef fyrirhitt, og ég dáist að því hvað þú tekur stundum jafnvel dónaskap inn á t.d. sölusíðunum með miklu jafnaðargeði og kurteysi, ég væri fyrir lifandis löngu búin að segja viðkomandi að dingla sér!
    Þess vegna ertu með alla þessa fylgjendur kæra Soffía, fyrir það hvað þú ert og stendur fyrir.

  8. Vala Sig
    26.10.2016 at 11:28

    Áfram Soffía

  9. Anna Sigga
    26.10.2016 at 12:09

    Yndislega dásamlega þú 😀 Takk fyrir pistilinninn í dag og alla aðra daga 🙂

    Sammála fyrsta ræðumanni, ég er hér að fylgjast með, af því að þú ert þú 🙂

    Áfram Soffía !!

  10. Gulla S
    26.10.2016 at 13:05

    ❤️

  11. Helga
    26.10.2016 at 15:45

    Það þarf stórt hjarta til þess að opna sig svona fyrir stórum hópi lesenda og þér hefur tekist að vera áfram þú þó að lesendum hafi fjölgað 🙂
    Takk fyrir að opna heimilið þitt og hjarta og deila með okkur hinum fallegum hugmyndum. Það er nú þannig að þetta eru ekki bara “tilgangslausir dauðir hlutir”, fallegt heimili vekur vellíðan og örugglega allir sem kannast við að þykja vænt um einhverja hluti.

    Að því sögðu þá er ég farin í rúmfó að kaupa mér nýja púða 😉

  12. Inga
    26.10.2016 at 19:46

    Haltu áfram að vera þú. Alltaf gaman að skoða bloggið þitt, meðal annars af því að það er laust við allt merkjasnobbið sem svo margir virðast lifa fyrir. Hef fengið fullt af snilldar hugmyndum frá þér 😊knús í hús 💛

  13. Sigrún Huld Auðunsdóttir
    26.10.2016 at 19:55

    Virkilega flottur póstur og ég verð að segja að ég hef ofboðslega gaman af snöppunum þínum einmitt af því þau eru svo casual og skemmtileg. Var samt nokkrar sek að kveikja á hvaða rauða I-i þú varst að tala um haha!

  14. Anonymous
    26.10.2016 at 20:26

    Þú ert yndiseintak af manneskju ( ég gúgglaði þetta orð yndiseintak og þetta kom upp. Ekkert efni fannst við leit að orðinu “yndiseintak” en veistu mér er alveg sama geri það bara að mínu. Takk fyrir bloggið þitt.
    Kveðja
    Sú gamla KS

  15. Asta Kristjánsdóttir.
    26.10.2016 at 22:46

    Flottur pistill og þú dugleg að koma hlutunum frá þér af sannri hreinskilni,vonandi heldur þessi síða áfram í sama anda.Það er óendanlega hægt að dúlla sér á henni.Takk Takk.

  16. Hulda
    26.10.2016 at 23:40

    Knús 😍

  17. Steinunn Guðbrandsdóttir
    27.10.2016 at 09:56

    Þú ert yndisleg eins og þú ert skapandi og heldur úti frábæru bloggi. Þitt blogg er alltaf í uppáhaldi hjá mér. Hugmyndauðgi þitt er framúrskarandi og maður á alltaf von á einhverju nýju og skemmtilegu frá þér og það hefur aldrei brugðist.
    Þú ert yndislega gefandi og akkúrat á réttum stað með bloggið þigg.
    Ég þakka fyrir að þú sért hér.

    Bestu kveðjur.

  18. Berglind
    27.10.2016 at 11:48

    Er búin að fylgjast með blogginu þínu í mörg ár. Hlakka svooo til að taka loksins við lyklum að eigin húsnæði í næstu viku. TAKK TAKK TAKK<3

  19. Heidrun Finnbogadottir
    27.10.2016 at 12:03

    Sama og allar hinar sögðu! Þess vegna hef fylgst með þér nánast frá byrjun, þú ert yndi!

  20. Anna
    21.08.2017 at 21:15

    Haltu áfram að fylgja hjarta þínu, takk fyrir að deila öllum dásemdunum með okkur hinum ❤️

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *