Mömmusamviskubitið…

…hérna í “gamla daga” – fyrir hrunið og allt það, þá gaf Fjölvi út skemmtilegt tímarit sem hét Fyrstu Skrefin.  Á sínum tíma skrifaði ég nokkrar greinar í það og var að finna þær aftur í tölvunni hjá mér.  Ég ákvað því hreinlega að deila með ykkur einni hérna í dag.  Svona þar sem að mömmusamviskubitið hefur sko ekkert minnkað með árunum…

2006-02-27-164929_(IMG_1745)

Þegar ég varð ólétt fékk ég að heyra alls konar sögur.
Fékk að heyra að andvökunætur væru næstum því óumflýjanlegar.
Að núna væri friðurinn úti.
En það var enginn sem sagði mér að eftir að stelpan mín væri komin í heiminn, myndi ég þjást af eilífu samviskubiti.

mynd_YZAijs

Það er margt sem breytist í lífinu þegar maður verður mamma. Áður var ég bara ég, það var frekar auðvelt. Þurfti bara að hafa áhyggjur af sjálfri sér og mínum eigin þörfum. Ef ég fór í búðir þá valdi ég föt á sjálfa mig, í matvörubúðinni keypti ég það sem mér þótti gott og ef það hentaði mér þá sleppti ég bara kvöldmat og fór í bíó eða kaffihús.

2006-02-27-183024_(IMG_1788)

Síðan varð ég ófrísk. Allt í einu þurfti ég að fara í reglulegar heimsóknir til ljósmóður og standa skil á gerðum mínum og líðan. „Ertu að borða reglulega og hollt, þyngjast of mikið eða of lítið?“  Þegar líða tók á meðgönguna fóru enn fleiri spurningar og enn meira álag að gera vart við sig.  Hvernig viltu hafa fæðinguna?  Ætlar þú að nota lyf?  Margar fara í jóga og anda sig í gegnum fæðinguna – það er víst ekkert mál. Allt í lagi, hugsaði ég, best að fara í jóga og læra að anda rétt. 

Ég gekk inn í sal fullann af bumbulínum sem allar teygðu sig og sveigðu, allar lofuðu jógað og dásömuðu.  Kennarinn „ómm-aði“ og talaði um að við værum eins og blóm, og að í fæðingunni sjálfri myndum við opnast sem slík. Blóm? frussaði ég, miðað við þær myndir og lýsingar sem ég hef heyrt af fæðingum þá voru blóm ekki efst í huga mér. Svo í lok tímans þegar sungið var saman um blómin, sólina og allt það, þá fékk ég nóg. „Afsakið mig, ég er kaldhæðin nútímakona.  Huh, má ég fara heim?“.

Síðar um kvöldið var ég að lesa á netinu og sá ekkert nema góðar sögur af jóga. Þetta gerði konum svo gott og öllum fannst þetta æði. Það fóru að renna á mig tvær grímur. Af hverju var þetta ekki að henta mér? Af hverju fannst mér þetta bara fyndið? Yrði ég þá ekki eins og blóm í fæðingunni?  Hvaða tilfinning er þetta?  Já góða mín, þessa tilfinningu lærir þú að þekkja þegar fram líða stundir.  Þetta er nefnilega mömmusamviskubitið.

Var ég sem sé ekki að gera það besta sem ég gat fyrir barnið mitt af því að ég fór ekki í meðgöngujóga? 03-2006-09-24-192850_(IMG_7971)
Þessi tilfinning varð sterkari eftir að barnið mitt kom í heiminn.
Fyrst var það fæðingin, ég þurfti að fara í bráðakeisara með stelpuna mína, eftir misheppnaðar tilraunir með sogklukku.  Var ég sem sé að bregðast henni strax þá, fyrst hún fékk ekki að koma „klassísku leiðina“ í heiminn?  Ég var búin að útbúa hinn svokallaða óskalista til að afhenda ljósmóðurinni. Þar kom fram að ég ætlaði að standa í fæturnar og láta þyngdaraflið hjálpa til, lyfin áttu að vera af skornum skammti og þetta átti allt að vera eftir bókinni. En ég stóð ekki og andaði mig lyfjalaust í gegnum fæðinguna, heldur gjörsamlega hékk ég á glaðloftinu og fékk mænudeyfingu – meira að segja með frírri áfyllingu.

Gullfallega stúlkan mín kom loks í heiminn og var lögð í fangið á mömmu sinni. 
Þrátt fyrir að hafa ekki náð að fara eftir óskalistanum mínum þá fékk ég samt það sem var efst á honum; heilbrigt, yndislegt barn.

12-2006-02-11-203817_(IMG_1344)

Ég var frekar lemstruð eftir þetta allt saman, annars hefði ég örugglega munað að spyrja hana dóttur mína út í þetta með jógað – sko hvort að hún væri fúl yfir að ég hafði sleppt því?

2006-02-17-143501_(IMG_1539)

 

Þú gætir einnig haft áhuga á:

4 comments for “Mömmusamviskubitið…

  1. Anonymous
    27.04.2016 at 08:10

    Yndisleg lesning og gullfalleg stelpan þín 🙂

  2. Arna Erlingsdóttir
    27.04.2016 at 08:15

    Yndisleg lesning og gullfalleg stelpan þín 🙂

    Það er svona skemmtilegra að skilja eftir nafnið sitt 😉 Kann ekk að eyða hinu 🙂

  3. Margrét Helga
    27.04.2016 at 13:41

    Þú ert yndislegur penni og alltaf skemmtilegt að lesa það sem þú skrifar! Og vá hvað maður kannast við svona mömmusamviskubit!!

  4. Greta
    27.04.2016 at 15:37

    Gaman að lesa 🙂
    Hugsa að allar mömmur kannist við þetta blessaða “mömmusamviskubit”. Ég var lengi að losna við “égfórekkiíungbarnasund” samviskubitið því ég fékk endalaust að heyra hvað það væri gott fyrir börnin.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *