Fyrirgefðu…

…já þú – fyrirgefðu!

Ég er búin að vera að skrifa þetta blogg í næstum 5 ár núna.  5 ár eru rosalega langur tími til þess að halda úti bloggi, setja inn pósta á hverjum virkum degi – og flestir póstarnir eru með myndum hérna að heiman eða sem ég hef tekið sjálf.

Póstarnir eru líka ekki smápóstar, við erum oftast að tala um 15-25myndir alveg að lágmarki.

1-2015-07-12-180418

Ég er alveg eins og þið, fæ ljótuna, fæ leið á hinu og þessu, finnst ég aldrei gera nógu vel, finnst “allir hinir” gera flottara, finnst ég vera hitt og þetta.

Ég skoða mikið af bloggum, mest erlendum og svo auðvitað tek ég hinn íslenska bloggrúnt, og hugsa svo oft hvað þessi, eða hin, er að gera flott.  Hvað hún X er alltaf fín og sæt, Hvað hún Y á smart heimili og svo framvegis.  Tala nú ekki um ef ég hætti mér á erlendu bloggin sem að “fótboltafrúnar” eru að halda úti – þið vitið þessar úber súper dúper fullkomnu – þá fellur maður nánast í ögnvit af allri þessari fullkomnum og fegurð.

Það er þá sem ég vitna í hana systur mína.  Ég held meira að segja að ég hafi sagt þetta áður – en það er þetta með góðu vísuna sem er ekki of oft kveðin.
Ég á “litla” systurdóttur, sem er 7 árum yngri en ég og nánast bara eins og systir mín.  Þegar hún var pínu peð, krútt með krulluhár um rétt rúmlega 3ja ára, þá gekk hún í gegnum sitt prinsessuskeið og tilkynnti það að hún ætlaði sko að verða prinsessa þegar að hún yrði stór.  Stóra systir mín, sem er nú sjaldnast orðavant, sagði við dóttur sína: Gott og blessað, en þú veist að prinsessur prumpa líka!

Litla krullubarnið fór að háááágráta – þvílíka óréttlætið í þessum heimi! Að prinsessa í demantakjól með kórónu yrði líka fyrir þessum ósköpum 🙂

Þetta er ágætis áminning!
Við erum allar nefnilega eins, bara mismikið eins.  Við eigum okkar styrkleika, og okkar veikleika.  Og mikið væri heimurinn fátækari ef við værum allar eins og sniðnar úr sama klæðinu.

01-Skreytumhus.is 29.05.2015

En þetta með fyrirgefninguna í byrjun er einmitt út af þessu.

Ég les/skoða blogg sem láta mér líða eins og ég sé með allt á afturfótunum.  Mínir komplexar tengjast eldhúsinu og matseld, sem mér leiðist meira en orð fá lýst – það ætti að vera ólöglegt að þurfa að gefa fólki að borða svona oft á dag.  Mínir komplexar tengjast öllum meiköppbloggunum, þar sem ofurfallegar konur tala um hvað sé einfalt að gera sig svona og hinssegin sæta, og alveg sama hversu oft ég maka framan í mig þá næ ég þeim aldrei.  Mínir komplexar tengjast menningu og listum, hef ekki tíma til þess að lesa bækurnar allar sem mig langar að klára og finnst of gaman að horfa bara á afþreyjingarefni. Svo ekki sé minnst á rækt og allt þess háttar *dææææs*

Ég er með heimilið nokk á hreinu, eins og ég vil hafa það, en fæ samt oft tilfinninguna að ég sé halló og ekki að gera “rétt”, sérstaklega þegar ég sé mikið af umfjöllun um hinar og þessar íslenskar síður, en ekki um mína!  Þið vitið – þetta með minnimáttarkenndina!

22-Skreytumhus.is 29.05.2015-020

Þess vegna vildi ég segja fyrirgefðu.

Ég vona að ykkur líði ekki eins gagnvart mér og mínu, eins og mér líður stundum gagnvart öðrum bloggum.  Ég vona að þið vitið að þið eruð að lesa “ritskoðaða” útgáfu af heimilinu/lífinu.  Að vísu er ekki mikið drasl að staðaldri, en Guð veit að það er margt annað í gangi sem maður er auðvitað ekkert að skrifa um. Enda vil ég að ykkur líði vel þegar þið komið í “heimsókn”.

Blogg eru svoldið eins og Facebook-statusar.  Við erum lítið að skrifa um það sem við viljum halda fyrir okkur sjálf.  Enda held ég að fæstir kæmu hingað til þess að lesa um hvort að ég sé búin að klára þvottinn, eða hvort að búið sé að skúra. Þess vegna eru póstarnir mis”góðir”.  Sumir eru bara léttir, sumir eru svona, og aðrir eru með “stórfenglegum” DIY-um *hóst hóst*

Við vorum líka búin að fá það hreint að prinssessur prumpa – og ekki bara regnbogum 🙂

Fullscreen capture 24.8.2015 022806

Lífið er ekki dans á rósum, lífið er miserfitt, lífið getur sparkað í rassinn á þér ítrekað.
Þess vegna reyni ég að segja ykkur að njóta þess að gera í kringum ykkur, eins og þið fílið best.  Ekki reyna að eltast við það sem að aðrir ákveða að þið þurfið að eignast, reyndu frekar að finna það sem vekur tilfinningar innra með þér.  Finnum gleði og kátínu í hlutunum.

Höfum þetta fullkomlega ófullkomið!

Ég vona að þér líði vel í þínu.  Ég reyni að láta mér líða vel í mínu, og geri hlutina eins vel og ég get, fyrir mig og mína, og bloggið fyrir ykkur.  Ég get aldrei meira en það.

En samt: fyrirgefðu og knúz inn í dagin! ♥♥

20-Skreytumhus.is 29.05.2015-018

ps. þætti vænt um að þið mynduð smella á like-hnappinn ef þið höfðuð gaman af póstinum og ekki væri nú verra að heyra aðeins frá ykkur!

Þú gætir einnig haft áhuga á:

16 comments for “Fyrirgefðu…

  1. Jenný
    24.08.2015 at 08:44

    Soffía þú ert yndisleg. Haltu áfram að vera ÞÚ

    • Anna Sigga
      24.08.2015 at 13:01

      Hjartanlega sammála Jenný 🙂 Þú ert þú og haltu áfram að vera þú … því þú ert best í því 😉

      *prump* hihíhíhííhí

      Hafðu það gott í dag Soffía mín 😉

  2. Svala
    24.08.2015 at 08:49

    Akkurru er ekki hægt að ýta skrilljónsinnum á LIKE takkann???????????????????????? KNÚSAR

  3. Litla krullfrænkan
    24.08.2015 at 09:34

    Það ER þá satt þetta með prinsessurnar!
    Lífi mínu er lokið….*handarbak á enni*

    ❤️

  4. 24.08.2015 at 09:43

    Takk fyrir þetta, mjög góður og þarfur pistill. Mér líður vel þegar ég skoða bloggið þitt, finnst það hlýtt og mjúkt:), gefur góðar hugmyndir og kraft, er það ekki tilgangurinn?
    Við erum öll svona samt og það er ekkert heimili fullkomið og allir að glíma við eitthvað, það er bara svoleiðis. Mikilvægast er að vera sáttur við sig og sína og reyna ekki alltaf að falla inní einhverja staðla sem aðrir ákveða, taka ákvarðanir fyrir sig og sitt heimili en ekki á grundvelli tískusveiflna eingöngu. Hjarðhegðun er leiðinleg.
    Haltu endilega áfram – þú ert á góðri leið…..

  5. Erla Fanney
    24.08.2015 at 11:25

    má ég læka oftar 🙂 flottur og skemmtilegur póstur. by the way, mig dreymir um svona flott barnaherbergi og eru hjá þér 😉 híhí

  6. Halla Dröfn
    24.08.2015 at 12:05

    Þú ert mitt uppáhalds blogg einmitt því það er svo eðlilegt og laust við uppskrúfað snobb 😉
    “Allir eru góðir í einhverju, enginn er góður í öllu”!

  7. Ása
    24.08.2015 at 12:17

    Elska bloggið þitt eins og það er, þú ert frábær.
    kveðja

  8. eva
    24.08.2015 at 12:55

    ert æðisleg, þarft ekkert fyrirgefðudrasl.

  9. Margrét Helga
    24.08.2015 at 14:41

    Elsku besta Soffía mín…veistu, það er ekkert sem þú þarft að biðjast fyrirgefningar á. Bloggið þitt er, að öðrum bloggum ólöstuðum, besta og skemmtilegasta blogg sem ég hef lesið! Önnur blogg eru svo sannarlega skemmtileg og áhugaverð en þitt stendur alltaf uppúr. Ég dáist að því að þú hafir haft orku í að halda þessu úti í (næstum því) heil 5 ár og ef ég á að vera alveg hreinskilin þá fékk ég smá hland fyrir hjartað þegar ég las byrjunina, hélt að þú værir að tilkynna að þú ætlaðir að hætta!!!! Mér líður nefnilega stundum eins og ég sé hálfgerður eltihrellir :/ Skoða bloggið á hverjum einasta degi og virðist alltaf þurfa að tjá mig eitthvað :/
    En…hefurðu einhverntímann hugsað að hin bloggin eru bara eins og þú segir að þitt sé? Þau eru pottþétt “ritskoðuð” líka…Það er enginn, og ég endurtek ENGINN sem lifir algjörlega fullkomnu lífi þar sem ekkert er að. Ef einhver lætur þannig þá er viðkomandi með þvílíka grímu sem hann vill ekki fyrir sitt litla líf að einhver sjái í gegnum. Og hefurðu hugsað að það er örugglega einhver bloggari þarna úti sem hugsar um þitt blogg eins og þú hugsar um annara blogg? Það er pottþétt einhver með minnimáttarkennd gagnvart þínu bloggi/heimili! T.d. bara hún ég 🙂
    Ég fyrir mitt leyti er voðalega fegin að bloggið þitt er eins og það er…ekkert snobb, engin merkjavörusýki og það er einlægt og yndislegt. Gefur manni frábærar hugmyndir og lætur mann alltaf hlæja.

    Mundu að þú ert frábær eins og þú ert elsku Soffía. Haltu því áfram því enginn gerir það betur!! Og það er miklu betra að vera maður sjálfur heldur en léleg eftirlíking af einhverjum öðrum 🙂

    Risaknús úr sveitinni <3

  10. Greta
    24.08.2015 at 17:44

    Ja, hvað getur maður sagt við þessari yndislegri pælingu.
    Elska bloggið þitt, sérstaklega því það er laust við tilgerð, það er persónulegt og svo dásamlegur tónn í því sem ég get ekki alveg útskýrt 🙂
    Haltu áfram á þinni braut og ég held áfram að fylgjast með þér!
    Taaaaakkkk fyrir mig.

  11. Anna Steinunn
    24.08.2015 at 21:55

    Mèr finnst bloggid thitt æđi

  12. Sigrún
    25.08.2015 at 22:39

    Elsku Soffía haltu áfram að vera þú sjálf , þú ert svo yndisleg og bloggið þitt frábæra kona 😉

  13. Sæunn
    26.08.2015 at 11:19

    Takk fyrir pistilinn Soffía. Ég held að konur þurfi að minna sig reglulega á inntakið í því sem þú ert að segja. Ég hef reynt að temja mér nýtt viðhorf í þessum efnum sl. ár eða svo. Það er að í stað þess að fá samviskubit yfir því hve aðrir eru svo mikið með þetta, þið vitið fallegt heimili, geðveikan mat, 100 km hjólarúntur og ég veit ekki hvað, eða að sem er verra, öfunda þá, þá samgleðst ég þeim um leið og ég minni mig á að auðvitað er þetta bara sparihliðin sem fólk er að sýna. Ég held að ég hafi lesið pistil eftir hana Árelíu Eydísi, dósent við HÍ, þar sem hún lagði til við kynsystur sínar að tileinka sér þetta viðhorf.

    Ég á líka mínar sparihliðar og svo stend ég mig bara vel á sumum hliðum (en síður á öðrum eins og gengur). En þetta með að samgleðjast hefur reynst mér nokkuð vel. Svo ég samgleðst þér þegar ég sé hvað þú átt fallegt heimili og hvað þú ert sniðug í að gera hluti sjálf og svona. Þitt framtak hvetur mig líka áfram og gefur mér hugmyndir þegar andinn fyrir mig að gera eitthvað kemur fram 😉

  14. Halldóra
    08.12.2016 at 11:37

    Mér finnst þessi blogg ómissandi og heimilið svoooo fallegt. Haltu þínu striki! 🙂

  15. Ósk
    05.01.2018 at 21:44

    Kæra Soffía haltu áfram að vera þú sem ert lang best átt svo fallegt heimili og ert t.d mêr svo mikil fyrirmynd í svo mörgu og,êg er rúmlega sextug 😉 . Fer alltaf í gott skap við að heyra í þér hlusta á þig fá tár í augun þegar Stormur dó og brosa við önnur ljúfari atvik í lífi ykkar . Bestu kveðjur með þökk fyrir árið sem var að líða 🤩

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *