Mánudagur…

…er mættur og janúar kominn vel á veg – og því er víst ekki lengur hægt að neita að rútínan er komin í fulla keyrslu.
Eins og vanalega þá ætlar maður að taka allt með trompi í janúar, þið vitið – gera allt sem þarf að gera!

IMG_5793

Hvað svo verður, veit nú enginn – en ég ætla samt að boða til netts janúarátaks.

Við erum búin að vera að humma fram af okkur að ganga frá hlutum í bílskúrnum, og ég veit ekki með ykkur – en ég er ein af þeim sem hreinlega á erfitt með að gera hluti þegar ég veit af einhverju svona ruslaskrímsli (aka bílskúrinn) sem bíður mín.

IMG_5798

Við erum reyndar með háaloft, en það er farið að virka eins og svarthol og ýmislegt sem fer þarna upp, hverfur beint í gleymskunnar dá og því ber að ná tökum á þessu.  Þetta verður ekki gert á einum degi, hvað þá tveimur – sér í lagi vegna þess að við þurfum að negla niður spýtur þarna uppi til þess að útbúa gólf – til geymslu og gangs, en þetta þarf að gera.  Síðan verður sorterað og raðað í hólf á milli sperra.  Jólahólf(in), barnadótahólfin, random-stólar sem húsfreyjan dregur með sér heim hólfið, og þess háttar.

IMG_5801

Myndin er algjörlega sviðsett, ég negldi ekki einn nagla!

Þegar verður farið að raða þarna á skynsamlegri máta – þá ætti að verða auðveldara að losa meira úr skúrnum og setja upp á háaloft og spuning hvort að náist að stinga á bílskúrs-kýlið með þessum máta.

Hvað er það sem þið þurfið að ná að gera?
Eruð þið með einhver svona verkefni sem draga úr ykkur þrótt og mátt og virka óþolandi yfirþyrmandi?

Það er nefnilega ótrúlegt hvað það hjálpar t.d. mikið að vera búin að setja upp smá verkáætlun og ráðagerðir um næstu skref!

Spáum í þessum saman, er ruslaskúffan í eldhúsinu að fara með þig?
Fataskápurinn í svefnherberginu?

Eigum við að nota janúar að einhverju leiti til þess að byrja á þessum verkefnum sem hræða?

10419541_10205053562192057_4768322028198469104_n

Ég ætla síðan fljótlega að sýna ykkur eitt og annað sem “fannst” á háaloftinu, þar kennir margra grasa og eitt og annað sem skemmtilegt er að skoða 🙂

T.d. gamlar lopapeysur sem standast tímans tönn…

IMG_5804

…svo ekki sé minnst á endurnýjuð kynni við gamla vini…

IMG_5806

Þú gætir einnig haft áhuga á:

6 comments for “Mánudagur…

  1. Margrét Milla
    12.01.2015 at 10:31

    Leiðinlegt að sprengja kúluna þína en þótt þú fáir meira geymslupláss á háaloftinu þá minnkar ekki draslið í bílskúrnum nema mesta lagi tímabundið. Afhverju heitir þetta bílskúr? Er einhver sem geymir bílinn sinn í þessari geymslu?
    Við tókum oggupons til í skúrnum um helgina (og hann var sæmilegur í hálftíma) og fundum þar tvo menn sem höfðu komið einhverntíman síðustu árin að lesa af mælunum þarna inni, þeir voru frelsinu fegnir og ég fegin að vera laus við klórhljóðið sem ég heyrði stundum í skúrnum og hélt að væri mús. Þeir höfðu reyndar aldrei hist þarna í skúrnum blessaðir en voru fegnir að ég hafði týnt að minnsta kosti 27 pokum af fuglafóðri þarna í draslinu, það hélt lífinu í þeim ásamt lögg úr tómum gosflöskum sem nóg var af.

  2. Margrét
    12.01.2015 at 10:58

    Er byrjuð á bílskúrnum 🙂 og hlakka til að koma bílnum aftur inn en hann hefur ekki komist inn í 2 vikur sem er agalegt vandamál fyrir kuldaskræfu eins og mig :/
    En eiginmaðurinn er að búa til litla skrifstofu í bílskúrnum ( fæ smá horn fyrir allt draslið mitt ) þar sem hann er byrjaður á því þá var ákveðið að mála, raða, henda og klára kannski kertaarininn sem er búin að standa í skúrnum í 2 ár ómálaður !!!
    Ég sé að þetta tekur kannski enda eftir ca. 3 vikur ef maður gerir ekkert annað nema vera út skúr að vinna….. Sendi þér myndir þegar ég er búin !

  3. Margrét Helga
    12.01.2015 at 12:05

    Verðum við ekki að vera þrjár í röð, Margrétarnar?! 😉

    Er meira en lítið til í að taka þátt í þessu janúarátaki með þér Soffía mín…hér er það herbergi í núverandi notkun sem geymsla sem þarf að taka í gegn. Á að gegna hlutverki gestaherbergis/föndurherbergis og aðstöðu fyrir frumburðinn þegar hún kemur heim í skólafríum og svoleiðis, en enn sem komið er hefur varla sést í gólfið þar fyrir kössum og alls konar dóti. Veit ekki til þess að það séu neinir menn þarna inni (engin rafmagnstafla eða hitagrind þarna inni 😉 ) þannig að ég er ekki stressuð þeirra vegna :p Hins vegar, áður en allt getur farið að rúlla þá þarf ég nauðsynlega að komast í búð sem heitir InnKaupEruAgalegaskemmtileg, oft skammstafað IKEA, og versla mér smávegis af hirslum 😉

    Stefnum að því að hafa allt spikk og span þann 1. febrúar, er þa´kki???

    Og Margrét Milla…ég gat ekki annað en hlegið að kommentinu þínu!! Þetta er yndislegt hjá þér 😀

    Gangi okkur öllum vel 🙂

  4. Greta
    12.01.2015 at 15:50

    Er ekki cool að Greta komi þá í kjölfarið á Margrétunum?
    Bílskúr, það fyrirbæri er nú alveg sér kafli. Hugsa að ég geti talið á fingrum annarrar handar hversu oft bílinn hefur verið þar inni.
    Við tókum svakalega vel til í sumar (alltaf rigning og ekkert annað í stöðunni en að ráðast á skúrinn). Fórum ansi margar ferðir í Sorpu, flokkuðum, röðuðum og gáfum. Get svo svarið það að það sést varla munur.
    Góða skemmtun, það er æði að finna gleymda muni 🙂
    Ég er ekki komin með neina framkvæmdaráætlun en það er svona smotterí hér sem væri frábært að drífa af.

  5. Magnea
    12.01.2015 at 22:07

    Er ekki tilvalið að það komi ein Magnea á eftir Margrétartríóinu og einni hálf Margéti 🙂
    Bílskúr hmmm, nafnið er í það minnsta rangt í okkar tilfelli enda höfum við aldrei sett bíl þar inn. Það er alveg sama hve oft við tökum til i honum hann er alltaf fullur af drasli og núna er ekki hægt að ganga um hann. Í vetur hefur verið músagangur í bílskúrnum sem er auðvitað alveg óþolandi. Við hefðum ekki áttað okkur á því nema vegna þess að Schnawser tíkin okkar bennti okkur á það. Gott að nota veturinn í að taka hann í gegn, við skulum sjá hvað ég gef honum mikinn tíma þessari bráðnauðsynlegu elsku. Gangi ykkur hinum vel:-)

  6. Guðný Ruth
    13.01.2015 at 11:31

    Nú kem ég og skemmi þetta skemmtilega nafnaþema sem myndaðist hérna í kommentunum – sorry 🙂
    Bílskúrinn úff… Mér fallast eiginlega hendur í hvert skipti sem ég fer þangað inn, sem er oftast til að bæta í draslið en ekki taka úr því. Ég held að eiginmaðurinn sé alveg búinn að gefast upp, hann hefur þó gert ítrekaðar tilraunir til að reyna að laga til og skipuleggja þarna en það vantar eiginlega í hann skipulagsgenið þannig að það gengur misvel. Vandamálið með okkar skúr er að þar er of mikið af dóti sem ekki er hægt að losa sig við og ekki hægt að geyma annars staðar 🙁 Sex reiðhjól, tjaldvagn, rafmagnsvespa og svo framvegis.

    En ég get, ætla og skal! Veit ekki hvernig er best að ráðast í þetta verkefni, það liggur við að maður þurfi að taka sér frí frá vinnu á meðan. En ég er með í þessu átaki, það verður gaman að sjá hvað leynist í “bíl”skúrnum 🙂

Leave a Reply to Guðný Ruth Cancel reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *