Fjársjóðir…

…koma héðan og þaðan.  Þeir eru alls ekki dýrustu hlutirnir sem þú eignast, þurfa ekki að vera “merkjavara” eða neitt svoleiðis.  En þeir snerta hjartastrengi og gleðja, færa til baka minningar um löngu liðna tíma, eða yndislegar manneskjur, bæði sem eru hjá okkur og þær sem farnar eru á braut.
Ég heiti Soffia í höfuðið á henni móðursystur minni.  Hún var/er og verður ávalt ein af mikilvægustu manneskjunum sem ég hef þekkt.  Hún var svo hjartahlý og góð við mig, að í minningunni þá sé ég bara brosið hennar og finn faðmlagið, og hvernig hún gaf manni alltaf einn koss til viðbótar – bara til öryggis.    Ég er þessi litla 🙂
Ég er líka nokkuð viss um að ást mín á bömbum og hreindýrum kemur heiman frá henni Deddu (ég kallaði hana alltaf Deddu), því að þar voru til svo sætar bambastyttur og endilega skoðið vel myndina sem hangir á vegginum á bakvið okkur….
Hún Dedda mín var stóra systir hennar mömmu minnar (fædd 1922 en mamma er síðan fædd 1937 – þarna er mamma þessi litla)…
…og þegar mamma mín er á fermingaraldri þá er Dedda mín í húsmæðraskóla…
…og eins og sést þá hafa skvísurnar þar þurft að redda sér og klætt sig upp sem herrar sumar hverjar, svona þegar að dansleikir voru…
…ég fékk að skanna inn nokkrar myndir og blaðsíður úr Minningarbók
 sem að Dedda átti á þessum tíma…

…og þar á meðal kom þessi síða:

…ég gat ekki annað en brosað með sjálfri mér þegar að ég hugsa um minngarbækurnar úr bernsku minni, sem byggðust upp á spakmælum eins og “Lifðu í lukku en ekki í krukku” og svo auðvitað klassíkin “mundu alltaf vel og lengi að kyssa aldrei skóladrengi”.  En ég staldraði við þetta ljóð úr bókini hennar Deddu og tók þetta til mín, enda stendur Soffia mín efst 😉
Lifðu til að lýsa og fræða,
lifðu til að þerra tárin,
lifðu til að líkna og græða,
lifðu til að mýkja sárin.
Lifðu í dýrstum lukku blóma,
lifðu frjáls á sléttum vegi,
lifðu þér til láns og sóma,
lifðu sæl að hinsta degi.
Ef einhver veit hver á þetta ljóð þá má endilega deila því með mér, fann það ekki með Senjór Google, nema að það hafi verið kona að nafni Guðlaug Jónsdóttir.
En til þess að gera stutta sögu langa, til þess er ég hér, þá er þessi póstur í tilefni þess að ég setti þennan dúk á borðið mitt núna um jólin…
…en hann var einmitt gerður af henni Deddu minni í Húsmæðraskólanum þarna um 1948-50,
þvílíka vinnan sem þetta hefur farið í þennan dúk – og þvílíkur fjarsjóður sem þetta er fyrir mig og mína að fá að eiga og njóta…
…dúkurinn er sem sé alveg hvítur og með gráum útsaumi í,
sérlega fallegur og klassískur…
…og þessir gullfallegu stjörnustjakar eru frá Púkó og Smart (eins og svo margt annað fallegt sem hefur ratað inn á heimilið undanfarið)…
…en þetta er sem sé fallegi dúkurinn minn, sem er komin vel yfir 60 árin
og er dýrmætari en orð fá lýst…
…og er svo mikið spari, spariuppáhalds!
…mér finnst alltaf jafn yndislegt að eiga hluti sem að minna mig á fólkið sem ég elska,
og ég var búin að sýna ykkur gömlu kirkjuna mína sem spilar Heims um ból og Dedda gaf mér í kringum 1980 (held ég) og ég man líka eftir tilfinningunni, stoltinu af því að eiga svona gersemar sjálf, að ég var bara kríli en ég átti kassa með mínu jólaskrauti…
…ég vona að ég hafi ekki gert út af við ykkur með þessum pósti, en það eru áramót og um áramót verð ég meyr og hugsa til þeirra sem farnir eru, þess vegna fannst mér gott að hugsa til hennar Deddu minnar í dag og fá að deila því með ykkur!

Þú gætir einnig haft áhuga á:

9 comments for “Fjársjóðir…

  1. 31.12.2012 at 10:35

    Takk fyrir þessa skemmtilegu sögu. Alltaf gaman að lesa um fallega hluti og tenginu þeirra við eitthvað sem skiptir mann máli og þá fá hlutirnir aukna merkingu og meiningu 🙂 ….og ljóðið er rosalega fallegt !

    Gleðilegt nýtt ár Soffía og takk fyrir alla skemmtilegu póstana þína á liðnu ári 🙂

    kv
    Kristín

  2. mAs
    31.12.2012 at 11:09

    Takk fyrir að deila þessu með okkur. Dúkurinn er yndislegur og gaman að eiga svona fallegan hlut sem felur líka í sér dýrmætar minningar.

    Gleðilegt nýtt ár 🙂
    Margrét

  3. 31.12.2012 at 11:10

    yndislegur póstur.
    Dúkurinn er rosalega fallegur

    Gleðilegt ár og takk fyrir allt á árinu 🙂

  4. 31.12.2012 at 11:11

    En falleg saga hjá þér Soffía…táraðist meiri segja…verð meyr eins og þú um áramót.

    Mikið ertu heppin að eiga svona fallegann dúk, hann á sér svo sannarlega langa og fallega sögu.

    Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir alla póstanna þína, þeir eru margir búnir að vera mér mikill innblástur 🙂

    kær kveðja Erla
    heimadekur.blogspot.com

  5. Anonymous
    31.12.2012 at 15:12

    Yndisleg saga Soffía og takk fyrir að deila henni með okkur 🙂 ég er svo sammála þér með gersemarnar sem maður eignast frá fólkinu sem manni þykir vænt um og ég tók strax eftir þessu geggjaða dúk á FB myndinni 🙂 Uppáhaldshlutirnir mínir eru einmitt hlutir frá ömmum mínum sem ég fékk úr dánabúum þeirra 🙂
    Gleðilegt ár og hlakka til að fylgjast með þér áfram á nýju ári !
    kv.
    Halla

  6. Anonymous
    31.12.2012 at 19:03

    Takk fyrir skemmtilegt bloggár. Hef sko oft getað lyft mér upp við að skoða fallega pósta frá þér 🙂 OG svo er líka gott að heyra að fleiri eru meyrir í dag, þegar hugsað er til þeirra sem eru farnir.. Gleðilegt ár!

    kveðja,
    Inga Sif

  7. 01.01.2013 at 09:43

    Takk fyrir þetta, dásamleg tengingin á milli ykkar og ljóðið og “sagan” ykkar svo innilega falleg, í máli og myndum.
    Dúkurinn er þvílík gersemi og mér kemur mjög á óvart hvað hún hefur saumað í stóran og langan dúk, þetta er sá langstærsti sem ég hef séð útsaumaðan frá þessum húsmæðra skólaárum…

  8. Anonymous
    02.01.2013 at 00:02

    Falleg orð um frænku þína. Svakalega fallegur dúkurinn 🙂 kv. Anna Björg

  9. 06.01.2013 at 11:56

    Dásamlegur dúkur, algjör dýrgripur! Gleðilegt ár Soffía, ég dáist að því hvað þú ert dugleg að blogga alla virka daga, ég hélt ekki einu sinni út í 24 daga hehe. Takk fyrir endalausa inspiration!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *